Innlent

Kalt kranavatn í boði í Leifsstöð eftir nokkra daga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Blöndunartæki verða sett upp á næstu dögum á salernum í Leifsstöð þannig að fólk sem á leið um flugvöllinn geti þar fyllt á vatnsflöskur með köldu vatni. Þetta kom fram í viðtali við Guðna Sigurðsson, upplýsingafulltrúa Isavia, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Greint var frá því í liðinni viku að hvergi væri hægt að fá kalt kranavatn í flugstöðinni. Hvorki eru drykkjarbrunnar til staðar né eru blöndunartækin á salernunum þannig búin að hægt sé að fá kalt kranavatn þar.

„Þessi blöndunartæki sem eru á staðnum núna eru snertifrí þannig að þau blanda heitt og kalt. Þetta er til hægðarauka fyrir fólk svo það þurfi ekki að snerta á blöndunartækjunum en það var nú gott að fá þessa gagnrýni. Það er alltaf gott að fá jákvæðar ábendingar þannig að dagur íslenska vatnsins verður bara eftir nokkra daga í Leifsstöð þar sem við munum einfaldlega setja upp blöndunartæki á baðherbergjunum,“ sagði Guðni í morgun.

Þá sagði hann jafnframt að vatn væri í boði á veitingastöðum í flugstöðinni og því hefði þetta ekki verið mikið vandamál hingað til en sem dæmi má nefna að Joe and the Juice í Leifsstöð hefur rukkað fyrir vatnsglasið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×