Erlent

Kallar eftir algeru banni á kjarnorkuvopnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Xi Jinping, forseti Kína, vill að kjarnorkuvopn verði alfarið bönnuð og þeim vopnum sem þegar eru til verði eytt. Þetta sagði hann í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf í dag. Þá kallaði forsetinn eftir því að heimurinn ætti að hafna yfirráðum eins, eða nokkurra landa.

„Stór ríki ættu að koma fram við smærri ríki sem jafningja í stað þess að koma fram vilja sínum gegn þeim,“ sagði Jinping.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni lauk Jinping fjögurra daga verð sinni um Sviss með langri ræðu í Evrópuhöfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Í ræðu sinni sagði hann að Kína ætlaði sér að byggja langvarandi frið í heiminum.

Þá sagði Jinping að Kína hefði „alltaf sett réttindi fólks og hagsmuni ofar öllu öðru“.

„Við höfum unnið mikið að því að þróa og viðhalda mannréttindum. Kína mun aldrei sækjast eftir útþenslu, yfirráðum eða áhrifasvæði,“ sagði hann.

Eins og Reuters bendir á hafa stjórnvöld í Peking um árabil verið sökuð um gróf og ítrekuð mannréttindabrot af mannréttindasamtökum og öðrum stjórnvöldum. Þá hefur Kína ólöglega lýst yfir yfirráðum sínum yfir nánast öllu Suður-Kínahafi, þvert á vilja smærri nágranna sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×