Lífið

Kallaður Kúrubangsinn

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hermann Þór Sæbjörnsson Neffe stofnaði hópinn, Kúrufélagagrúbban á Facebook en fjöldi fólks hefur óskað eftir aðgangi í hópinn. Hópurinn á að vera góður vettvangur fyrir fólk til þess að kynnast og líða vel.
Hermann Þór Sæbjörnsson Neffe stofnaði hópinn, Kúrufélagagrúbban á Facebook en fjöldi fólks hefur óskað eftir aðgangi í hópinn. Hópurinn á að vera góður vettvangur fyrir fólk til þess að kynnast og líða vel. fréttablaðið/Andri Marinó
„Málið er að ég var inni í öðrum hópi sem kallast Andvaka og þar var fólk sem var að tala um að það væri einmana og andvaka, og ákvað ég að búa til svoleiðis hóp,“ segir hinn 34 ára gamli Hermann Þór Sæbjörnsson Neffa en hann hefur stofnað hóp á Facebook undir nafninu Kúrufélagagrúbban.

Hópinn stofnaði Hermann Þór þann 28. júlí síðastliðinn og eru strax rúmlega 600 manneskjur skráðar í hann, en er ekki erfitt að halda utan um þetta? „Ég hef sett inn reglur sem fólk þarf að fara eftir eins og til dæmis að segja til um aldur, svo að fólk sé nú á svipuðum aldri, og hvernig kúr það vill,“ segir Hermann Þór.

„Það eru alltaf einhverjir sem vilja að kúrið endi með kynlífi en fólk þarf að taka það fram svo það fari í kúrið með sömu væntingar.“ Hann vill ekki að síðan breytist í einhverja einkamálasíðu. „Það vita allir að einkamál.is er bara sölusíða fyrir vændi.“

Hendir út dónunum

Hermann Þór, sem er kallaður Kúrubangsinn á síðunni, stofnaði hópinn í fullri alvöru og vill með honum búa til góðan og áreiðanlegan vettvang fyrir fólk til þess að finna hlýju og vonandi góða vini. „Það er alvara í þessu. Ef fólk er með dónaskap og stæla þá hendi ég því út úr hópnum um leið. Ég hef þurft að henda nokkrum út úr grúppunni,“ útskýrir Hermann Þór. Honum barst ábending um kynferðisafbrotamann á síðunni og var sá aðili fjarlægður um leið.

„Ef ofbeldismenn eða glæpamenn eru að reyna nýta sér hópinn þá hendi ég þeim út um leið. Þetta á að vera góður vettvangur. Ég veit um nokkur dæmi þess að fólk hafi farið á deit eftir að hafa kynnst í hópnum,“ segir Hermann Þór. Hann vill að hin ameríska stefnumótamenning verði sterkari hér á landi og telur hópinn kjörinn kost til þess að bæta úr stefnumótamenningu Íslendinga.

Hermann Þór ætlar sér stóra hluti og er með ýmsar hugmyndir ef vel gengur. „Ef við náum ákveðnum fjölda fólks væri gaman að halda viðburð, eins konar kúrukvöld, þar sem fullt af kúrurum hittist. Það gæti einnig verið gaman að fara í bíó saman, það er oft góð stemning sem myndast þar,“ segir Hermann Þór. Þá útilokar hann ekki að ef vel gengur fari meðlimir hópsins saman í útilegu. „Það gæti einnig verið gaman að fara í utanlandsferð ef góður hópur myndast.“

Uppskrift að góðu kúri

Hermann Þór lýsti fyrir okkur hvernig gott kúr fer fram:

„Gott kúr er til dæmis þegar horft er á góða bíómynd og fólk spjallar og hlær saman. Fólk kúrir og knúsast yfir myndinni. Oft leiðir kúrið út í kynlíf en fólk þarf að taka það fram hvort það vilji kynlíf eftir kúrið svo það sé nú með sömu væntingarnar,“ segir Hermann Þór um gott kúr.

Gott kúr er allra meina bót

Rannsókn sem birt var í tímaritinu Comprehensive Psychology sýnir fram á að regluleg faðmlög og kúr hafi góð áhrif á heilsuna. Samkvæmt rannsókninni lækkar tíu sekúndna faðmlag blóðþrýstinginn og hleypir hormónum í blóðstreymið sem láta okkur líða vel.

Á meðan á þessu stendur lækkar magn stresshormónsins kortisóls í blóðinu. Þá geta faðmlög einnig minnkað einkenni þunglyndis og minnkað líkur á hjartaáföllum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×