Innlent

Kalla borgarstjóra á fund fjárlaganefndar

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir því við Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, að borgarstjóri Reykjavíkur verði boðaður á fund nefndarinnar vegna fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar.

Ein ástæða þess að borgarstjóri hefur verið boðaður á fund er að hann hefur lýst því yfir að fjárhagsvandi borgarinnar sé að hluta  tilkominn vegna fjárlagagerðar stjórnvalda.

Þá hefur Ásmundur einnig óskað eftir því að fulltrúar úr eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga verði boðaðir á fundinn.

Tap A-hluta reksturs Reykjavíkurborgar var tvöfalt meira en ráð var gert fyrir. Dagur B. Eggertsson segir að aðgerðaáætlun til að bregðast við vandanum sé í bígerð.

„Ég vonast til að ná breiðri samstöðu um það. Þar tökum við bæði ákvarðanir til skamms tíma, til að loka árinu, og leggjum línur um það hvernig við getum látið enda ná saman á næsta ári og næstu þremur árum.“

Helsta aukning í gjöldum borgarinnar snýr að auknum kostnaði við starfsmannahald vegna nýrra kjarasamninga. Þar þurfi að ná hagræðingu en uppsagnir eru ekki á dagskrá.

„Ég treysti mér til að fullyrða að uppsagnir verða undantekningin,“ segir Dagur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×