Innlent

Kalífinn leiddi bæn og guð ýtti á pásu

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Bay'har innvígsluathöfnin er einn af lokapunktum Jalsa Salana árlega
Bay'har innvígsluathöfnin er einn af lokapunktum Jalsa Salana árlega
Ég er staddur á akri í Hampshire, nokkra kílómetra fyrir utan smábæinn Farnborough á Englandi. Ég er umkringdur múslimum. Það er nýbúið að segja mér að þeir séu um 40 þúsund talsins.

Ef einhver utanaðkomandi myndi rata á þann stað sem ég stend á myndi sá hinn sami eflaust halda að hann væri staddur á tónlistarhátíð. Hér eru hvít tjöld úti um allt. Risatjöld sem rúma samtals yfir 20 þúsund manns, matsölubásar, aðstaða fyrir sjónvarps- og útvarpsfólk og kynningarbásar hjálparsamtaka. En hér hefur ekki verið spiluð nein tónlist í þrjá daga. Ekki ein nóta. Hér eru heldur engir vímugjafar, hvorki áfengi né gras.

Ég stend fyrir utan stærsta tjaldið þar sem kalífinn Mirza Masroor Ahmad, trúarleiðtogi ahmadyyia-múslima, er að halda lokaræðu sína á úrdú eftir þriggja daga Jalsa Salana, sem þýðir „alþjóðleg ráðstefna“. Þetta er í fimmtugasta skipti sem ráðstefnan er haldin í Bretlandi. Fyrr um daginn ávörpuðu nokkrir stjórnmálamenn samkomuna. Þar á meðal voru varaforseti Úganda og Tim Farron, formaður Frjálslyndra demókrata, sem og Matthew Bayliss, bæjarstjóri Alton í næsta nágrenni.

Bretadrottning mætti ekki en sendi kveðju sem var lesin yfir hópinn.

Ég ætti að vera inni í tjaldinu að fylgjast með kalífanum ásamt þeim þremur íslensku ahmadyyia-músl­imum sem ég ferðaðist með hingað og trúboðanum Mansoor Malik sem kynnti trúarbrögðin fyrst fyrir þeim í Kolaportinu. En ég þoldi illa hitann og eintóna rödd kalífans (sem yrðir einungis á fylgjendur sína á úrdú) hjálpaði ekki til við baráttu mína við að halda athygli á litla sérhannaða útvarpstækinu sem ég er með í eyranu.



Mizra Masroor Ahmad, trúarleiðtogi Ahmadyyia-múslima og fimmti kalífinn.
Múslimaríki bera ábyrgð

Tækið virkar líka fyrir utan tjaldið þannig að ég get átt stund með sjálfum mér en samt fylgst með því sem fram fer inni. Röddin í eyranu á mér þýðir jafnóðum hvað kalífinn er að segja. Ég stend í sólinni agndofa yfir ræðu hans. Tveir strákar eru að sparka á milli sín steinum í nokkurra metra fjarlægð frá mér og hundruð karlmanna standa fyrir utan tjaldið og ræða saman. Kalífinn að tala um ábyrgð múslimaríkja í þeirri bylgju hryðjuverka sem hefur riðið yfir Evrópu- og Afríkuríki síðasta árið.

Hann segir múslimaríki bera mestu ábyrgðina og að þau verði að finna leiðir til þess að berjast á móti öfgum í trúnni. Það sé hægt með því að einbeita sér að kjarnanum; fjölskyldunni sjálfri. Hlúa að sínu fólk, tileinka sér aukið umburðarlyndi fyrir menningarsiðum annarra. Daginn áður talaði hann í tvo klukkutíma um mikilvægi þess að ná fram kynjajafnrétti á meðal þjóða íslams. Ég hugsa með mér hversu mikilvægt sé að trúarleiðtogi um 20 milljóna múslima skuli tala við sitt eigið fólk á þennan hátt. Það kom mér svo sem ekkert á óvart því Mizra Masroor hefur síðustu ár verið fyrstur til þess að fordæma hryðjuverk sem framin hafa verið í nafni íslams. Með þá hugsun í höfði gerist svolítið stórkostlegt.

Kalífinn klárar ræðu sína og biður gesti um að fylgja sér í þögulli bæn. Allt í einu ríkir algjör kyrrð, innan tjalds sem utan. Það er eins og einhver hafi skyndilega ýtt á pásu, öll truflun á náttúrunni af mannavöldum stöðvast. Jafnvel strákarnir hætta að sparka steinunum, standa kyrrir og setja hendurnar fyrir andlitið. Ég geri það sama. Það eina sem truflar er þýðandinn í eyranu á mér sem er byrjaður að gráta yfir upplifuninni. Sólin vermir á meðan. Ef guð hefur einhvern tímann verið einhvers staðar, þá var hann þarna – á þessu augnabliki.

Kalífinn lýkur bæninni og guð ýtir aftur á play-takkann. Ég hugsa með mér að það eitt að það sé mögulegt að 40 þúsund manns geti safnast saman á þremur dögum án þess að það verði nokkurt ósætti, rifrildi, slagsmál eða nauðganir sé minniháttar kraftaverk. Á Íslandi er okkur kennt að þar sem mannfólk safnast saman í þúsundum sé það óumflýjanlegur fylgifiskur að breyskleiki mannsins rati upp á yfirborðið með ofbeldisfullum hætti. Á fáum stöðum, innan um þúsundir manna hefur mér fundist ég jafn öruggur og á Jalsa Salana.



Íslenski hópurinn ásamt blaðamanni. Einn vildi ekki láta þekkja sig á myndinni.Vísir/Mansoor Malik
Austuríski nýnasistinn

Eini maðurinn með óþægilega nærveru á staðnum var austurrískur nýnasisti að nafni Martin. Hann hitti ég á barnum kvöldið fyrir ráðstefnuna. Í ölæði sínu sagði hann mér að hann vildi banna múslima í Evrópu og gefa landamæravörðum leyfi til þess að skjóta á flóttafólk sem reyndi að komast inn í landið. Ég get aðeins ímyndað mér að hann hafi verið á staðnum til þess að njósna og fá einhvers konar staðfestingu á helsta ótta sínum. Að múslimar ætli sér að taka yfir Evrópu, ryðja vestrænum gildum til hliðar og koma á sjaría-lögum.

Seinna, eftir að yfirvöldum á svæðinu hafði verið tilkynnt um ásetning hans, var ég hissa að sjá hann á svæðinu. Hann ræðst að mér og er óður í að króa mig af í næsta horni til þess að rökræða við mig afstöðu sína til múslima. Ég segi honum eins kurteislega og ég get að ég hafi lítinn áhuga á að rökræða við hann um slík málefni á þessum stað. Slíkt þyki mér óviðeigandi sem gestur á friðsælli samkomu innan um þúsundir ólíkra manneskja sem hann hafi þegar litað sem óvini í huga sínum. Hann horfði grimmdarlega í augun á mér og sagði: „Þinn dómur mun koma … fljótt, sjáðu til. Allah, sér til þess … það er það sem þú trúir, er það ekki?“ Ég klappaði honum á öxlina, bauð honum að eiga góðan dag og gekk í burtu.

Seinna þegar ég spurði Mansoor trúboða hvers vegna austurríska nýnasistanum hefði ekki verið vísað af svæðinu eftir að flett var ofan af honum svaraði hann: „Ég held að hann þurfi að leggja heilmikið á sig ef hann ætlar að halda áfram að hata á svona stað. Er ekki bara betra að gefa honum mat, sýna honum kærleika og vonast til þess að hann hlusti á það sem hér er sagt?“

Kalífinn

Masroor Ahmad, núverandi leiðtogi ahmadyyia-múslima, er sjá fjórði sem tekur við stöðunni eftir dauða messíasarins en hann er einnig barnabarnabarn hans. Eiginkona hans er svo dóttir annars kalífans. Masroor hefur einbeitt sér að því að hvetja ríki heims til þess að eyða kjarnavopnum og leggur áherslu á að sameina leiðtoga trúarbragða í friðsælum umræðum. Hann komst í heimsfréttirnar þegar hann gagnrýndi síðasta páfa fyrir vanþekkingu á íslam. Nýlega hefur hann hvatt ahmadyyia-múslima til að berjast gegn öfgum innan íslams í baráttu gegn hryðjuverkaárásum.

Jalsa Salana
Ahmadyyia-múslimar

Ahmadyyia-múslimar er trúarhópur sem á rætur sínar að rekja til Punjab í Pakistan undir lok 19. aldar. Trúarhópurinn byggir á sömu hugmyndafræði og aðrir múslimar og les sömu trúarrit. Helsti munurinn er að þeir trúa því að messías sá sem Múhameð á að hafa spáð um sé þegar kominn.

Hann hét Mirza Ghulam Ahmad, fæddist 1835 og dó 1908. Þetta fer fyrir brjóstið á strangtrúuðum sjía- og súnní-músl­imum í Pakistan og eru trúarbrögðin ólögleg þar. Þar af leiðandi hafa ahmadyyia-múslimar verið ofsóttir þar í landi. Talið er að um 20 milljónir múslima í heiminum í dag séu ahmadyyia.

Ahmadyyia-múslimar á Íslandi

Amadyyia-múslimar hafa verið með trúboða á Íslandi í nokkur ár og til þessa hefur þeirra helsta vígi verið í Kolaportinu. Flestir þeirra íslensku múslima sem hafa gengið í samfélagið hafa fyrst komist í snertingu við það í Kolaportinu.

Ahmadyyia-­múslimar hafa ekki enn skráð trúfélagið formlega hér á landi en íslenskir múslimar í samfélaginu eru færri en tíu talsins. Núverandi trúboði hér heitir Mansoor Malik en hann er Þjóðverji. Mansoor segist ætla að bíða með að skrá félagið hér á landi þar til að fleiri hafa bæst í hópinn.

Jalsa Salana

Jalsa Salana er alþjóðleg trúarleg samkoma ahmadyyia-múslima sem er haldin árlega víðsvegar um heim. Einkennisorð Jalsa Salana hljóma eins og þau séu úr Bítlalagi; Love for all, hatred for none. Megintilgangur samkomunnar er að styrkja trúna, auka skilning og þekkingu á atburðum núlíðandi stundar og hitta fólk af ólíkum uppruna.

Árlega eru veitt friðarverðlaun á hátíðinni en í ár fékk Setsuko Thurlow verðlaunin. Hún lifði af kjarnorkuárásina á Hiroshima og hefur gert það að ævistarfi sínu að berjast fyrir því að kjarnavopn verði lögð niður á heimsvísu.

Kynjaskipt svæði

Um 20 þúsund konur voru á Jalsa Salana í ár. Svæðið var kynjaskipt en það þýddi þó ekki að konum væri meinaður aðgangur að karlasvæðinu. Karlmönnum var þó meinaður aðgangur að kvennasvæðinu. Þegar konurnar heimsóttu karlasvæðið var komið fram við þær af gífurlegri virðingu. Til dæmis má nefna, að ef þær þurftu að troða sér í gegnum mannþröng karlmanna - þá færðu karlmenn sig iðulega til hliðar þannig að þær kæmust greiðlega í gegn.

Sú hefð er á meðal múslima að skipta svæðum þegar kemur að því að biðja. Ástæða þess er sú að í bæninni fara múslimar niður á hné, leggja höfuð á jörðina sem þýðir að afturendinn fer upp í loftið. Bænin er heilög stund og því talið betra að ekki sé eitthvað í umhverfinu sem geti truflað athyglina frá sjálfri bæninni. Föngulegir afturendar hins kynsins, og það á jafnt við karla og konur, eru taldir vegna náttúru manna geta truflað samband manns og æðri máttar á bænastundinni.

Ástæða þess að körlum er meinaður aðgangur inn á kvennasvæðið er til þess að þær geti tekið af sér höfuðslæður, rætt málin án truflunar maka þeirra og sinnt ungabörnum í næði.

Ljósmyndatökur á kvennasvæðinu eru bannaðar af sömu ástæðum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×