Erlent

Kaldastríðstónn Rússa vekur furðu Vesturlanda

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rússneskt flugskeyti Maður virðir fyrir sér langdrægt flugskeyti af gerðinni Topol í Serpukhov í Rússlandi.
Rússneskt flugskeyti Maður virðir fyrir sér langdrægt flugskeyti af gerðinni Topol í Serpukhov í Rússlandi. Vísir/AFP
Um síðustu helgi birtist í danska dagblaðinu Jyllandsposten grein eftir Mikhaíl Vanin, sendiherra Rússlands í Danmörku, þar sem hann hótaði kjarnorkuárásum á dönsk herskip. Þessi orð vöktu furðu á Vesturlöndum og Dönum var ekki skemmt.

Sendiherrann sagði Dani verða að átta sig á því að tækju þeir þátt í flugskeytavörnum NATO myndu Rússar hugsanlega gera dönsk herskip að skotmarki kjarnorkuvopna.

Martin Lidegaard utanríkisráðherra sagði engan veginn hægt að líða þessa framkomu sendiherrans: „Við erum ósammála Rússlandi um marga mikilsverða hluti, en það er mikilvægt að tónninn á milli okkar stigmagnist ekki.“

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, vísar þessum áhyggjum Rússa sömuleiðis á bug. „Þetta er varnarkerfi og Rússar vita að því er ekki beint gegn Rússlandi,“ sagði hann við blaðamenn í Kanada á mánudaginn var, þar sem hann var í stuttri heimsókn.

Kaldastríðstónn

Vladimír Pútín Rússlandsforseti gaf þennan tón á blaðamannafundi í Moskvu í desember síðastliðnum. Þar sagði hann Vesturlönd vera að reyna að draga tennur og klær úr „rússneska birninum“. Og tók sérstaklega fram að með þessu ætti hann við kjarnorkuvopn Rússlands. Hann bætti því svo við að rússneski björninn bæði ekki um leyfi til að gera það sem honum sýndist. Hann væri „meistari barrskógarins“ og eftirléti engum yfirráðasvæði sitt.

Spenna milli Vesturlanda og Rússlands hefur vaxið hratt undanfarið hálft annað ár, einkum vegna átakanna í Úkraínu sem kostað hafa þúsundir manna lífið. Pútín Rússlandsforseti sakar Vesturlöndin, og þá einkum Bandaríkin, um að hafa staðið á bak við valdarán í Kænugarði. Vesturlönd saka Pútín á móti um að hafa stutt leynt og ljóst aðskilnaðarsinna í átökunum í austanverðu landinu.

Í rússneskri heimildarmynd um Krímskaga, sem sýnd var í rússneska ríkissjónvarpinu um miðjan mars, viðurkenndi Pútín fúslega að hafa haft frumkvæði að því að innlima Krímskaga fyrir rétt rúmlega ári. Í þessari heimildarmynd viðurkennir Pútín einnig að hafa verið tilbúinn til að grípa til kjarnorkuvopna í átökunum um Krímskaga.

Pirringur

Afstaða Vesturlanda í Úkraínustríðinu, ásamt refsiaðgerðum tengdum kröfum um að Rússar láti vera að skipta sér af innanlandsstjórnmálum í Úkraínu, er ekki það eina í fari Vesturlanda sem rússneskir ráðamenn hafa átt erfitt með að sætta sig við.

Lengi hefur verið vitað að Rússar eru mjög ósáttir við áform NATO og Bandaríkjanna um að setja upp flugskeytavarnir í Austur-Evrópu, og líta á það sem beina ógn við sig.

Leiðtogar Bandaríkjanna og NATO hafa ítrekað reynt að halda því fram að þessu varnarkerfi sé ekki beint gegn Rússlandi, en á þann málflutning leggja rússneskir ráðamenn lítinn trúnað. Bandaríkjamenn sögðust lengi vel hafa meiri áhyggjur af kjarnorkuáformum Írans, og að auki hryðjuverkamönnum í Mið-Austurlöndum.

Þegar hins vegar rússneskur fréttamaður spurði Pútín Rússlandsforseta hvort þetta væri ekki bara rétt hjá Bandaríkjamönnum, að þeir litu ekki á Rússland heldur Íran sem ógn, þá setti að forsetanum óstjórnlegan hlátur.



Pirringur Rússa

18. desember, 2014

„Stundum held ég að kannski færi best á því að björninn okkar sæti bara kyrr. Hann ætti kannski að hætta að elta svín og villigelti um barrskógana og fara heldur að tína ber og éta hunang. Þá yrði hann kannski látinn afskiptalaus. En nei, hann fær ekki að vera það. Vegna þess að alltaf verður einhver til þess að reyna að setja björninn í keðjur. Og um leið og búið er að setja hann í keðjur þá munu þeir rífa úr honum tennurnar og klærnar. Í þessari líkingasögu er ég að vísa til máttarins sem býr í kjarnorkufælingu.“ - Vladimír Pútín, forseti Rússlands, á blaðamannafundi í Moskvu.

15. mars, 2015

„Við vorum reiðubúnir til þess.“ - Vladimír Pútín, forseti Rússlands, í rússneskri heimildarmynd um innlimun Krímskaga, spurður hvort Rússar hafi verið tilbúnir til þess að hafa kjarnorkuvopn í viðbragðsstöðu vegna deilunnar um Krímskaga.

21. mars, 2015

„Ég held að Danir átti sig ekki til fulls á því hvaða afleiðingar það hefði ef Danmörk tæki þátt í flugskeytavörnum undir stjórn Bandaríkjanna. Ef það gerist geta dönsk herskip orðið skotmörk rússneskra kjarnorkuflauga.“ - Mikhaíl Vanín, sendiherra Rússlands í Danmörku.

26. mars, 2015

„Afstaða okkar, sjálfstæð stefna okkar og jafnvel tilraunir okkar til þess að koma fólki í neyð til hjálpar, þar á meðal í Úkraínu og á fleiri svæðum, valda hreinlega pirringi af hálfu þeirra sem við höfum venjulega kallað félaga okkar og samstarfsaðila.“ - Vladimír Pútín Rússlandsforseti.

26. mars, 2015

„Til lengri tíma litið munu Bandaríkin, í samvinnu við bandamenn sína, halda áfram þeirri stefnu sinni sem miðar að pólitískri og efnahagslegri einangrun Rússlands, þar á meðal til að takmarka möguleika Rússlands til að flytja út orku frá auðlindum sínum og þröngva hergagnaframleiðslu Rússlands út af öllum mörkuðum, og skapa þá um leið erfiðleika fyrir framleiðslu á hátæknivörum í Rússlandi.“ - Sérfræðingar rússneska Öryggisráðsins í yfirlýsingu um þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna

Flugskeytavarnir Vesturlanda

1983 Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti, kynnti áform um flugskeytavarnarkerfi sem yrði staðsett bæði á jörðu niðri og í geimnum. Með þessu ættu Bandaríkin að geta varist kjarnorkuárásum frá Sovétríkjunum með því að skjóta á flugskeytin áður en þau ná alla leið til Bandaríkjanna. Þessi áform mættu harðri gagnrýni og voru sögð óraunhæf og draumórakennd. Talað var um að kvikmyndaleikarinn gamli væri kominn í einhvern stjörnustríðsleik.

1993 Bill Clinton, arftaki Reagans, gerði töluverðar breytingar á þessum áformum sem áttu að gera þau raunhæfari. Aldrei varð þó af því að þeim yrði hrint í framkvæmd.

2002 Á leiðtogafundi NATO í Prag var samþykkt að kanna möguleikana á því að setja upp flugskeytavarnir, sem yrðu bæði á herskipum í Miðjarðarhafinu og á landi í nokkrum ríkjum Austur-Evrópu. Leiðtogum sjö ríkja Austur-Evrópu var sérstaklega boðið til fundarins.

2006 Á leiðtogafundi NATO í Ríga voru samþykktar áætlanir um að setja upp flugskeytavarnarkerfi í Austur-Evrópuríkjum, þar á meðal Póllandi og Tékklandi.

2009 Obama Bandaríkjaforseti hætti við áform forvera síns um að setja upp flugskeytavarnarkerfi í Póllandi og Tékklandi. Í staðinn verði settar upp viðaminni flugskeytavarnir. 

2010 Rúmenía samþykkir að Bandaríkin setji upp flugskeytavarnir þar í landi.

2011 Fyrsta bandaríska herskipið, USS Monterey, var sent til Miðjarðarhafsins með Aegis-flugskeytavarnarkerfi um borð. 



2015
Aegis-flugskeytavarnarkerfi verður sett upp í Rúmeníu.

2018 Aegis-flugskeytavarnarkerfi verður sett upp í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×