Innlent

Kaldar og svangar gæsir og álftir við Tjörnina

Heimir Már Pétursson skrifar
Fuglarnir við Reykjavíkurtjörn norpuðu þar í kuldanum og rokinu í dag og voru fegnar hverjum brauðbita sem að þeim var réttur. Gæsahópur lenti í smá umferðarhnút og aðstoðuðu Björn G. Sigurðsson myndatökumaður okkar og Heimir Már fréttamaður þær við að komast leiðar sinnar.

Fréttastofan rakst á föngulegan gæsahóp við bílastæðið við Íslandsbanka sem greinilega voru í ætisleit en áttu í erfiðleikum með að komast aftur að Tjörninni. En eftir nokkurn gæsagang með tilheyrandi gargi hófst það þó að lokum og hópurinn sameinaðist stórum hópu gæsa og álfta sem norpaði í kuldanum á tjarnarbakkanum.

Það er greinilegt að fuglarnir voru svangir því þeir gáfu sig á tal við ferðamenn og aðra sem áttu leið hjá í von um brauðbita. Það var heldur lítið í boði þennan daginn og fréttamaður brá sér því í nálægt bakarí til að ná í brauð, sem vægast sagt rann ljúflega niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×