Fótbolti

Kagawa: Ég fékk gæsahúð

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kagawa líður vel í gulu treyju Dortmund
Kagawa líður vel í gulu treyju Dortmund vísir/getty
Shinji Kagawa lék sinn fyrsta leik með þýska úrvalsdeildarliðinu Borussia Dortmund á ný í gær eftir tvö vonbrigða ár hjá Manchester United.

Kagawa sló í gegn í Dortmund áður en hann gekk til liðs við Manchester United þar sem hann náði aldrei að festa sig í sessi og hann sló aftur í gegn í fyrsta leiknum sínum með Dortmund í gær sem lagði Freiburg 3-1.

Kagawa skoraði sex mörk í 38 leikjum á tveimur árum með Manchester United en tvö árin á undan skoraði hann 21 mark í 49 leikjum með Dortmund og hann tók upp þráðinn gegn Freiburg þar sem hann skoraði eitt mark og lagði upp annað.

„Ég var með gæsahúð allan leikinn. Það var endurnærandi og ánægjulegt að leika aftur á þessum leikvangi,“ sagði Kagawa eftir leikinn í gær.

Jurgen Klopp þjálfari Dortmund var ekki síður ánægður með að vera kominn með japanska landsliðsmanninn aftur í sitt lið.

„Staðreyndin er að Shinji getur leikið og við vissum fyrir að það er einstakt andrúmsloft hér,“ sagði Klopp um stemninguna á Signal Iduna Park leikvanginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×