Sport

Kaffibollinn kom til bjargar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Serena Williams náði ekki að jafna sig á þreytunni í dag.
Serena Williams náði ekki að jafna sig á þreytunni í dag. Vísir/Getty
Serena Williams bar upp óvenjulega bón í miðri viðureign sinni gegn Flaviu Penetta á móti í Perth í Ástralíu í vikunni.

Williams, efsta kona heimslistans, tapaði fyrsta settinu óvænt 6-0 og spurði þá dómarann hvort henni væri heimilt að biðja um kaffibolla.

Williams fékk stuttu síðar eitt skot af espresso-bolla sem virtist hafa gert henni heilmikið gagn því hún vann næstu tvö sett, 6-3 og 6-0 og þar með viðureignina.

„Ég var afar þreytt eftir flugið og Flavia var að spila virkilega vel. Það þurfa allir að fá kaffi af og til. Ég þurfti kaffi til að koma fótunum í gang,“ sagði hún.

Að tapa setti án þess að vinna lotu kallast „beygla“ á ensku (bagel) en Serena gantaðist með það í viðtali við fjölmiðla eftir leikinn. „Ég vildi kaffi með beyglunni minni.“

Kaffidrykkjan var þó ekki til mikils gagns í dag þar sem að Serena tapaði stórt fyrir Eugenie Bouchard frá Kanada, 6-2 og 6-1, í dag og er þar með úr leik í mótinu. „Ég veit ekki hvað er að mér,“ sagði hún eftir leikinn. „Ég er bara svo þreytt. Þetta er svo skrýtið - ég fæ ekki líkamann til að hreyfa sig og finnst eins og að ég sé algjörlega orkulaus.“

„Þetta er svolítið pirrandi því ég veit að ég get spilað tvö þúsund sinnum betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×