Lífið

Kafað á milli tveggja heimsálfa

Frosti Logason skrifar
Nú er ekki nema vika þangað til við fljúgum af stað í ferðalagið langa. Það er óhætt að segja að maður sé orðinn temmilega spenntur.

Við Diddi höfum verið að huga að ýmis konar undirbúningi og þannig reynt að koma í veg fyrir að við verðum ekki með allt niður um okkur þegar út verður komið. 

Sjálfur var ég búinn að vera með örlitlar áhyggjur af köfuninni á Tælandi. Það er mjög langt síðan ég kafaði síðast og ég var farinn að velta því fyrir mér hvort ég þyrfti kannski að læra þetta bara allt upp á nýtt. Taka fjögurra daga námskeið, próf og allan pakkann.

Við höfðum þess vegna samband við Dive.is, fyrirtæki sem er mikið að taka erlenda ferðamenn í ævintýrakafanir í kringum Ísland.

Þeir tóku okkur vel og sögðu okkur að hafa ekki miklar áhyggjur af þessu. Mjög vinsamlegir náungar. Því næst buðu þeir okkur að fljóta með þeim í næsta túr upp á Þingvelli, þar sem þeir fara daglega til þess að kafa á einum fallegasta köfunarstað í heimi, Silfru.

Eftir að hafa fengið munnlega upprifjun um hvernig búnaðurinn virkar skelltum við okkur svo ofan í og allt gekk eins og í sögu. Þetta eru þvílíkir fagmenn að það var ekki hægt að hafa áhyggjur af neinu þarna. Maður upplifði sig öruggan allan tíman og gat því beint allri athyglinni að þeirri stórbrotnu náttúrufegurð sem svæðið hefur upp á að bjóða. 

Diddi var svo auðvitað alltaf rétt fyrir aftan mig og myndaði allt eins og herforingi. Kíkið endilega á afraksturinn hér að ofan. 



Vinirnir Frosti Logason og Sigurður Þorsteinsson fara í haust í sex vikna ferðalag um Asíu og Afríku. Þeir ætla að leyfa lesendum Vísis að fylgjast með ferðalaginu í máli, myndum og myndböndum. Félagarnir fara meðal annars í safarí í Suður-Afríku, fara á brimbrettanámskeið á Balí og læra að kafa í Taílandi. Verkefnið gengur undir heitinu AsíAfríka.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×