Gagnrýni

Kærleikurinn er kjarni málsins

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Trúðarnir Bella, Úlfur og Guðrún fara á kostum í Borgarleikhúsinu.
Trúðarnir Bella, Úlfur og Guðrún fara á kostum í Borgarleikhúsinu.
Leiklist

Sókrates

Borgarleikhúsið - Litla sviðið

Handrit Bergur Þór Ingólfsson og Kristjana Stefánsdóttir

Leikstjórn Rafael Bianciotto og Bergur Þór Ingólfsson Leikarar Bergur Þór Ingólfsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir Leikmynd og ljósahönnun: Egill Ingibergsson Leik- og söngtextar Bergur Þór Ingólfsson Tónlist, útsetningar og upptökustjórn: Kristjana Stefánsdóttir Hljóð Garðar Borgþórsson Búningar: Stefanía Adolfsdóttir Leikgervi Elín S. Gísladóttir



Fyrir tvö þúsund fjögur hundruð og sextán árum beið heimspekingurinn Sókrates eftir dauðanum, samtímis ferðast minna þekktir spámenn, Pásanías og Patróklos, yfir Miðjarðarhafið með baneitraðan farangur. Trúðaóperan Sókrates í leikstjórn Rafaels Bianciotto og Bergs Þórs Ingólfssonar var frumsýnd í Borgarleikhúsinu síðastliðinn fimmtudag en trúðarnir Úlfar, Guðrún, Bella og Ronja eru svo sannarlega beittir og bráðfyndnir.

Litla sviðið umbreytist í helgireit með tilheyrandi leiktjöldum og heilögum hring fyrir miðju þar sem sýningin fer að mestu fram. Trúðarnir fara í allra kvikinda líki en hungraður hákarl og ónefnd flautustúlka með falinn harm koma meðal annars við sögu.

Maríanna Clara Lúthersdóttir er ein færasta leikkona landsins þegar kemur að líkamlegum grínleik; hún fettir sig, brettir og lipur framkoma hennar er hreinasti unaður. Henni fipast þó aðeins þegar kemur að framsetningu Platóns. Þrátt fyrir misgóða raddbeitingu hjá Kristínu Þóru Haraldsdóttur er hún virkilega góð í hlutverki hins þjakaða Patr­óklos. Lokasena hans er stórgóð þökk sé þeirri tilfinningalegu dýpt sem Kristín Þóra sýnir. Samleikur þeirra er einnig snjall og nær hápunkti þegar þeir félagar, Patr­óklos og Pásanías, verða að taka afdrifaríka ákvörðun.

Söngur Kristjönu Stefánsdóttur er afbragð og leikur hennar ekki síðri. Hún er með flotta kómíska tímasetningu og lokasena flautustúlkunnar er hennar sterkasta stund þar sem tregablandinn söngur og glaðværð blandast saman á óvæntan hátt. Bergur Þór Ingólfsson er einn af okkar reyndustu sviðslistamönnum, bæði á sviði og bak við tjöldin. Líkt og leikkonurnar syngur hann og dansar ef mikilli list en lestur hans á áhorfendum er skarpur. Stundum gengur hann aðeins of langt í trúðsleiknum en gleðin skín úr sviðsframkomu hans.

Á frumsýningunni biðlaði trúðurinn Bella til hópsins að endurtaka flókið dansatriði en hún hafði ruglast á sporunum. Í Sókrates er nefnilega pláss fyrir mistök, trúðar gera einmitt reglulega mistök en ná sér alltaf aftur á strik. Heiðarleiki, samkennd og úrlausnir mynda ramma verksins, eitthvað sem fleiri mættu draga lærdóm af.

Þó að meirihluti trúðanna sé kvenkyns eru persónur verksins aðallega karlkyns, endurspeglun af karllægri sögu heimsins. Einungis eiginkona Sókratesar, Xanþippa, og ónefnd flautustúlka koma við sögu en hennar söngur hljóðar svo: „Og stak er ég í þessu skakka mengi / því stelpa eins og ég er varla gildi. / Í tölfræðinni tíðkast engin mildi / er túlka skalt vort veraldlega gengi.“

Bergur Þór er afar snjall textahöfundur og hikar ekki við að blanda saman hádrama og fimmaurabröndurum af ódýrustu gerð. Samvinna hans og Kristjönu er gríðarlega góð, en hún hefur umsjá með tónlistinni. Þau draga upp skýrar myndlíkingar og takast á við málefni samtímans en ætíð er stutt í grínið og gleðina. Leikstjórn þeirra Rafaels og Bergs Þórs samrýmist textanum vel, umgjörðin er örugg en þeir taka sjálfa sig ekki of alvarlega. Myndirnar sem þeir draga upp eru fallegar í gáskafullum einfaldleika sínum.

Því miður er lokasena verksins heldur endaslepp og eftirminnilegri úrlausn hefði verið ákjósanleg miðað við sterka uppbyggingu. Sumir brandararnir gengu ekki alveg upp s.s. grínið um Grímuverðlaunin og orkustig sýningarinnar dalaði stundum, þá helst á milli atriða.

Egill Ingibergsson sér um leikmynd og ljósahönnun en hann er einn færasti fagmaður landsins á þessu sviði. Sviðslausnirnar eru einfaldar en gleðja augað. Þá verður sérstaklega að nefna framsetningu hins smáa Sófraniskos sem verður ekki upplýst hér en var dásamleg, með góðri hjálp frá Maríönnu Clöru. Búningar Stefaníu Adolfsdóttur eru að sama skapi frumlegir, spaugilegir og vel útfærðir.

Samkenndin og stemmingin sem skapast í salnum er eftirtektarverð en trúðarnir, með traustri aðstoð Rafaels, halda áhorfendum algjörlega í hendi sér. Sókrates er engu lík og leikhúsaðdáendur ættu ekki að láta þessa grátbroslegu trúðaóperu fram hjá sér fara.

Niðurstaða: Trúðarnir snúa aftur í öllu sínu veldi. Því ber hressilega að fagna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×