Innlent

Kærður fyrir kynferðisbrot: Ekki ástæða til að fara fram á lengra farbann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Meint brot átti sér stað á hótelinu Room with a view á Laugavegi.
Meint brot átti sér stað á hótelinu Room with a view á Laugavegi. Vísir/Anton Brink
Héraðssaksóknari telur ekki ástæðu til að fara fram á framlengingu á farbanni sem erlendur ferðamaður hefur verið í síðan í síðustu viku. Íslensk kona lagði fram kæru á hendur manninum fyrir kynferðisbrot á hótelherbergi í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins 17. janúar.

Maðurinn, sem var hluti af fjölmennum hópi sem kom hingað til lands í steggjapartýi, var fyrst úrskurðaður í tæplega viku gæsluvarðhald áður en farbannið tók við. Samferðamönnum mannsins var vísað af hótelinu í kjölfar þess að þeir voru allir fluttir til skýrslutöku á lögreglustöð ásamt hinum grunaða.

Rannsókn lögreglu er lokið og málið komið á borð héraðssaksóknara. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir í samtali við Vísi að ekki hafi verið talin ástæða til að fara fram á lengra farbann yfir manninum. Hann getur því haldið af landi brott.

Embætti héraðssaksóknara mun í framhaldinu ákveða hvort gefin verði út ákæra í málinu en telja má það ólíklegt í ljósi þess að ekki var farið fram á lengra farbann yfir manninum. Til samanburðar hefur maður setið í gæsluvarðhaldi síðan í desember vegna gruns um tilraun til að nauðga konum í miðbæ Reykjavíkur. Var gæsluvarðhaldið nýlega framlengt til 16. febrúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×