Handbolti

KA/Þór fær liðsstyrk fyrir veturinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Paula (t.v.) og Kriszta (t.h.) að handsala samninginn við formann deildarinnar, Siguróla Sigurðsson.
Paula (t.v.) og Kriszta (t.h.) að handsala samninginn við formann deildarinnar, Siguróla Sigurðsson. Mynd/Aðsend
KA/Þór fékk í dag liðsstyrk fyrir veturinn í Olís-deild kvenna þegar Kriszta Szabó og Paula Chirli frá Rúmeníu skrifuðu undir hjá félaginu.

Kristzta og Paula hafa verið á reynslu undanfarna daga með liðinu og heilluðu forráðamenn KA/Þór á meðan reynslunni stóð.

Tóku þær meðal annars þátt í æfingarferð liðsins suður um síðustu helgi þar sem þær sýndu fína takta í æfingarleikjum.

Þær eru 22 og 23 ára gamlar en Kriszta er markvörður á meðan Paula er rétthent skytta sem getur einnig leikið sem miðjumaður. Gunnar Ernir Birgisson, þjálfari KA/Þór var gríðarlega ánægður með liðsstyrkinn.

„Þetta eru flottir leikmenn og koma til með að styrkja okkur á komandi leiktíð. Í fyrra var Sunnu Pétursdóttur hent í djúpu laugina í markinu og stóð hún sig vel en hún er aðeins 15 ára gömul og er því gott að hún fái reyndari markvörð með sér í vetur,“ sagði Gunnar um Krisztu.

„Paula er lunkinn leikmaður og getur leyst allar stöðurnar fyrir utan mjög vel. Þetta verður spennandi vetur og setjum við markið hátt,“ sagði Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×