Íslenski boltinn

KA-menn heppnir að Bjössi verður ekki inni á vellinum í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sigurbjörn var fyrirliði Vals þegar liðið varð síðast bikarmeistari, árið 2005.
Sigurbjörn var fyrirliði Vals þegar liðið varð síðast bikarmeistari, árið 2005. vísir/daníel
Valur, sem berst um Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild karla í fótbolta, heimsækir 1. deildar lið KA í fyrri undanúrslitaleik Borgunarbikarsins í dag. Leikurinn fer fram á Akureyrarvelli klukkan 18.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

KA, sem styrkti lið sitt gífurlega fyrir tímabilið og ætlar sér upp úr 1. deildinni, hefur valdið miklum vonbrigðum í sumar ef frá er talinn bikarinn. Lærisveinar Bjarna Jóhannssonar eru búnir að skella bæði Breiðabliki og Fjölni á leið sinni í undanúrslitin.

Síðast þegar liðin mættust í mótsleik var í bikarkeppninni fyrir sex árum, en þá vann Valur, 3-2, eftir framlengdan leik. Dávid Disztl og Andri Fannar Stefánsson, núverandi leikmaður Vals, skoruðu mörk KA en Helgi Sigurðsson og Marel Baldvinsson fyrir Val. Það var svo Sigurbjörn Hreiðarsson, núverandi aðstoðarþjálfari Vals, sem skaut Hlíðarendaliðinu áfram með marki á 117. mínútu.

Liðin hafa ekki verið saman í deild í ellefu ár, en þau léku síðast saman í úrvalsdeildinni sumarið 2003. Þegar liðin mættust það tímabilið á Akureyrarvelli vann KA, 2-1. Sigurmarkið skoraði hver? Jú, Sigurbjörn Hreiðarsson á 73. mínútu. Jóhann Hreiðarsson, bróðir Sigurbjörns, skoraði fyrra mark Valsmanna í þeim leik.

KA-menn fagna því vafalítið að Bjössi eða einhver ættingi hans getur ekki orðið banabitinn inni á vellinum að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×