Enski boltinn

Jürgen Klopp: Ég er hræddur við ykkur fjölmiðlamenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool talaði varlega á blaðamannafundi eftir leik Liverpool og Leeds í enska deildabikarnum í gærkvöldi. Liverpool vann leikinn 2-0 og er komið í undanúrslitin en það var þó ekki ástæðan.

Klopp vissi að kornungur strákur myndi eigna sér allar fyrirsagnirnar og það er tvíeggja sverð fyrir leikmann sem er óharðnaður og á eftir að læra mikið ennþá.

Ben Woodburn, nýbúinn að halda upp á sautján ára afmælið, kom inná sem varamaður á Anfield í gær og innsiglaði sigurinn. Hann tók um leið metið yfir yngsta markaskorara Liverpool frá upphafi, met sem var í eigu Michael Owen í rúm 19 ár. Það er hægt að sjá markið hans hér fyrir neðan.

„Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd. Eina vandamálið er að ég er hræddur við ykkur fjölmiðlamenn. Þess vegna er ég svona hljóður,“ sagði Jürgen Klopp á fundi með fjölmiðlamönnum eftir leikinn. BBC segir frá.

„Við vitum hvernig við eigum að taka á þessu,“ sagði Klopp. Ben Woodburn kom inná sem varamaður um síðustu helgi og spilaði þá sinn fyrsta keppnisleik með aðalliðinu. Hann fékk aftur tækifæri á Anfield í gærkvöldi og skoraði fyrir framan Kop-stúkuna.

„Hann á eftir að gera margt og læra mikið,“ sagði Klopp en viðurkennir að það verður afar erfitt að halda honum frá allri athyglinni sem fylgir innkomu sem þessari.

„Ég sagði „vel gert“ við hann eftir leikinn. Þetta var nú samt ekki erfitt. Ég hefði skorað úr þessu færi. Við vitum vel hvað Ben getur og á hvaða stað hann er í dag,“ sagði Jürgen Klopp.


Tengdar fréttir

Carragher hrósaði sjálfum sér lúmskt á Twitter

Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi knattspyrnuspekingur Sky Sports, blandaði sér í umræðuna um hinn unga Ben Woodburn sem skoraði fyrir Liverpool í gær á móti Leeds í enska deildabikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×