Erlent

Justin Trudeau við flóttamenn: „Verið velkomin til Kanada“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, stendur fyrir annarri stefnu en forseti Bandaríkjanna.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, stendur fyrir annarri stefnu en forseti Bandaríkjanna. vísir/epa
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir á Twitter aðgangi sínum að þeir sem flýji ofsóknir, hryðjuverk og stríð séu velkomnir til Kanada, óháð trú sinni.

Með þessari færslu, sem má sjá hér að neðan, er Trudeau að taka afstöðu gegn fyrirskipun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, sem hann undirritaði í gær og meinar ríkisborgurum Íraks, Írans, Libíu, Sómalíu, Súdans, Sýrlands og Jemens inngöngu í Bandaríkin. Samkvæmt fyrirskipuninni skiptir engu máli hvort viðkomandi sé með varanlegt dvalar- og atvinnuleyfi í Bandaríkjunum, það er svokallað græna kort.

Í gær varð uppi fótur og fit á flugvöllum víðsvegar um Bandaríkin vegna fyrirskipunarinnar, en flugmálayfirvöld hafa átt í erfiðleikum með það hvernig túlka eigi nýju lögin og framfylgja þeim.

Í gær var til að mynda tveimur írökskum borgurum meinuð inngöngu i landið, sem hafa græna kortið og búið í landinu í áratugi. Þá hefur fjölmiðlum vestanhafs borist margar tilkynningar um að háskólanemar sem haft hafa fasta búsetu í Bandaríkjunum, geti ekki lengur snúið aftur, eftir að hafa verið staddir utan landsteinanna á meðan ákvörðun Trump var tekin.

Trudeau hefur frá því að hann tók við embætti vakið athygli fyrir skelegga framkomu sína og frjálslynd viðhorf, en Kanada hefur tekið á móti 40 þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi síðastliðnu þrettán mánuði.

Trudeau hefur ekki gagnrýnt Trump með beinum hætti, en hann er talinn einblína á samband ríkjanna til langframa, en ríkin tvö eiga í miklu efnahagslegu sambandi við hvort annað.

Kanada mun hleypa 300.000 innflytjendum inn í landið árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×