Lífið

Justin Timberlake gerði það sem ekki má gera í kjörklefanum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Instagram/Justin Timberlake
Yfirvöld í Tennessee rannsaka nú hvort að Justin Timberlake hafi brotið lög er hann tók sjálfsmynd í kjörklefa í heimaríki sínu. Bannað er að taka myndir á kjörstað í ríkinu.

Íslandsvinurinn og söngvarinn frægi kaus nýverið í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Svo virðist sem að hann hafi tekið mynd af sér í kjörklefanum. Setti hann myndina inn á Instagram til þess að hvetja 37 milljón fylgjendur sína til þess að nýta kosningarétt sinn.

„Hey þú, já þú! ég flaug frá Los Angeles til Memphis til þess að kjósa. Engar afsakanir, gott fólk,“ skrifaði Timberlake við myndina.

Ný lög voru sett í ríkinu á síðasta ári þar sem bannað er að taka myndir í kjörklefanum og birta þær á netinu. Talsmaður lögreglu í sýslunni sem Timberlake kaus í segir að verið sé að rannsaka málið.

Gott er að hafa þetta í huga hér á Íslandi fyrir alþingiskosningarnar sem framundan eru. Strangar reglur gilda um hegðun í kjörklefa og hvenær kjörseðlar eru ógildir líkt og Vísir fór yfir fyrir skömmu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×