Körfubolti

Justin spilar ekki aftur með Stjörnunni fyrr en í fyrsta lagi 16. febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse í leik á móti Tindastól.
Justin Shouse í leik á móti Tindastól. Vísir/Anton
Höfuðmeiðslin sem Justin Shouse varð fyrir á æfingu fyrr í þessum mánuði hafa sett framhald hans inn á körfuboltavellinum í mikla óvissu.

Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar í Domino´s deild karla í körfubolta verður ekkert með Garðabæjarliðinu fyrr en í fyrsta lagi eftir bikarúrslitavikuna.

Karfan.is hefur það eftir Hrafni Kristjánsson, þjálfara Stjörnuliðsins, að Shouse munu hvíla í næsta leik og gæti því náð þriggja vikna hvíld.

Á þessum vikum mun Stjarnan síðan leita ráða hjá læknum um hvað sé besta að gera í framhaldinu.

Justin Shouse lék ekkert með Stjörnunni í seinni hálfleik á móti Keflavík í síðustu umferð og missti alveg af leiknum á móti Njarðvík í vikunni á undan.

Justin Shouse fór greinilega of snemma af stað í Keflavíkurleiknum því hann kom ekki aftur inn í sal eftir hálfleikinn. Hrafn Kristjánsson talaði um það eftir leikinn að Justin hafi grátandi í klefanum og beðið alla liðsfélaga sína afsökunar.

Stjarnan mætir botnliði Snæfells í næsta leik sínum og því er það ekki mikið áhyggjuefni þótt að Justin sé ekki með.

Í framhaldinu er síðan bikarúrslitavikan þar sem Stjarnan er ekki með og næsti deildarleikur liðsins er því ekki fyrr en 16. febrúar en liðið mætir þá Þór Þorlákshöfn á heimavelli.

Justin Shouse er með 17,1 stig og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í leik í þeim fjórtán leikjum sem hann hefur spilað í Domino´s deildinni á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×