Handbolti

Jurecki: Hefur ekkert með íþróttir að gera

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Jurecki fagnar einu marka sinna í gær.
Jurecki fagnar einu marka sinna í gær. Vísir/Getty
Katar komst í gær í úrslitaleik HM í handbolta eftir sigur á Póllandi í undanúrslitum keppninnar, 31-29.

Eins og fjallað var um í gær hópuðust pólsku leikmennirnir að serbneska dómaraparinu eftir leikinn í gær og klöppuðu hæðnislega að þeim. Einn þeirra, Michal Szyba, nuddaði saman þumalfingri og vísifingri og gaf þannig í skyn að dómararnir hefðu selt Katar þjónustu sína.

Nokkrir dómar, sérstaklega undir lok leiksins, vöktu undran margra en erfitt er þó að færa sönnur á að dómararnir hafi verið vísvitandi að dæma Katar í hag í leiknum.

Pólsku leikmennirnir voru þó afar ósáttir og línumaðurinn Bartosz Jurecki sagði við TV2 í Danmörku eftir leikinn í gær að dómgæslan hafi ekki verið sanngjörn.

„Þýskaland tapaði líka fyrir Katar og það sem gerðist hér í dag hefur ekkert með íþróttir að gera,“ sagði Jurecki.

„Við gáfum allt í dag. Við gerðum auðvitað sjálfir okkar mistök, bæði í vörn og sókn. Það var svekkjandi en við gáfum allt sem við áttum og spiluðum virkilega vel.“

Katar mætir Frakklandi í úrslitaleiknum á HM í handbolta á morgun.


Tengdar fréttir

Katar komið í úrslit á HM

Ævintýri fjölþjóðalandsliðs Katar í handbolta hélt áfram í dag er liðið tryggði sér farseðilinn í úrslitaleik HM. Það sá enginn fyrir að gæti gerst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×