Lífið

Júníspá Siggu Kling – Steingeit: Slepptu tökunum á leiðindapúkum

Elsku Steingeitin mín. Mikið ofboðslega ert þú búin að vera dugleg, en samt tekur einhvern veginn enginn eftir því. En þér á bara að vera sama um það. Þú veist alveg hvað þú ert búin að vera að gera og afkasta, svo klappaðu sjálfri þér bara á bakið og vertu svolítið montin.

Það er búið að vera logn í kringum þig og logn er oft undanfari stormsins. Stormurinn er að byrja og þú þarft að vera undirbúin. Í huga þínum þarft þú að vera búin undir allt. Búin undir hvað vinnuveitandinn þinn segir, makinn, kennarinn og vinirnir.

Þú þarft að vera tilbúin og pollróleg, eins og ekkert hafi í skorist. Segðu við sjálfa þig: „Þetta er bara svona, allt mun ganga vel.“

Ekki rífast á móti og ekki segja leiðinlega hluti þó þú getir það, geymdu það sem þú veist, þú átt eftir að þurfa að nota það seinna. Þetta er sérstaklega góð tækni fyrir þig næstu mánuði! Hafðu það í huga.

Hjá ykkur Steingeitum sem eruð á lausu gæti ástin verið í svolitlu rugli ef hún er á annað borð til staðar. Það hentar þér ekkert sérstaklega vel.

Þú færð alveg drulluleiða á því að vita ekki hvað er að gerast eða ef hlutirnir eru eitthvað í rugli og ef þú, elskan mín, ert í hamingjusömu sambandi þá átt þú að halda í makann þinn nema hann hafi gerst sekur um framhjáhald eða óheiðarleika trekk í trekk.

Það er eitthvað að gerast innra með þér, elskan mín, og þú gerir miklar kröfur um hvernig þú lítur út og þú ert sko alveg að standast þær kröfur!

Þú ert svolítið eins og sálfræðingur og það spyrja þig allir um ráð en samt er eins og þú getir ekki ráðlagt sjálfri þér að neinu viti.

Þú þarft að vera í núinu, elskan mín, og hugsa og syngja: „Ég, ég, ég og aftur ég, það eina sem skiptir máli er bara ég, ég, ég.“ Finnst þér það eitthvað sjálfselskt? Þú þarft að muna að elska þig fyrst, þá fyrst mun það sem þú ert að gera blómstra, mín kæra.

Þú ert ekki fórnarlamb, hvorki þegar kemur að vinnunni eða ástarlífinu. Þú ert sigurvegari og stríðsmaður sem mun taka þetta líf með hægri hendinni og þá sérstaklega í sumar.

Slepptu öllum tökum á fólki sem er að drepa þig úr leiðindum. Steinhættu að umgangast það, svaraðu ekki símtölum og breyttu um stefnu.

Guð er kærleikur, það hefur enginn séð hann og það mun enginn sjá hann, þetta stendur nú bara í Biblíunni, og mundu að þú ert kærleikur, margfaldaðu það.

Knús,

þín Sigga Kling

Frægar Steingeitur: Guðjón Pétur Lýðsson markakóngur, Svava Johansen í Sautján, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, dr. Kristín Ólafsdóttir, Jón Gnarr, Elvis Presley, Gunnar Þórðarson, Tómas Guðbjartsson læknahetja, Lovísa Tómas, Dorrit Moussaieff forsetafrú, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, leikkona og Reykjavíkurdóttir, Jesús og Simmi á Fabrikkunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×