Lífið

Júníspá Siggu Kling – Krabbi: Skoðanir eru eins og rassgöt

Elsku hjartans Krabbinn minn. Það er eins og lífið sé bara sérstaklega skrifað fyrir þig þessa dagana.

Lífið er að gerast svo hratt og breytingarnar eru svo tíðar. Þetta er tímabil sem endist út sumarið.

Einhverjir nýir samningar, skemmtilegri vinna, margir að flytja eða laga húsin sín, gömul vitleysa gerð upp, ný og spennandi ást sem stendur til boða.

Mundu það samt, hjartað mitt, að margt getur verið spennandi en það þýðir ekki endilega að það sé til eilífðar.

Ekki reikna allt út, lífið er bara of stutt til þess, láttu það bara gerast! Stress og áhyggjur eru það eina sem getur hindrað þig í því að vera sannur sigurvegari og þetta bjarta sumar er það sem færir þér hamingjuna.

Ef þú ert í vinnu eða verkefnaleit, elskan mín, gríptu þá plássið í þeim báti sem siglir fram hjá.

Það eru dálítið margir sem eru að misskilja þig, hjartað mitt, þú þarft að tala skýrar og segja skoðanir þínar með gleði. Það er nefnilega þannig að skoðanir eru eins og rassgöt. Það eru allir með svoleiðis!

Mundu líka að þú ert ekkert meira smart þótt þú hafir rétt fyrir þér, stundum þarf að leyfa öðrum að hafa rétt fyrir sér. Það skiptir bara ekki öllu máli.

Í þér búa tveir karakterar, sá sem vill að allt sé í ró, spekt og öryggi og svo hinn sem vill upplifa ævintýri og breyta öllum heiminum.

Þú berð í hjarta þér meiri tilfinningar en öll hin stjörnumerkin, elskan mín. Hleyptu tilfinningum þínum út í jákvæðni og kærleika!

Þú verður svo næmur á allt í kringum þig, elskan mín, það er bara eins og þú sjáir í gegnum fólk. Ekki geyma hjá þér ergelsi eða leiðindi. Segðu bara frá hvernig þér líður, við eigum að vera svolítið gegnsæ og segja frá. Það er nefnilega bara með tilfinningarnar eins og rassgötin. Við erum öll með svoleiðis!

Þú átt það nefnilega til að þegja yfir einhverjum erfiðleikum eða gera leyndarmál úr einhverju sem þarf bara alls ekki að vera leyndarmál. Þá er bara hætt við að þú springir á endanum og allt lendi í einhverri kássu.

Brostu helmingi meira, elskan mín, og ég lofa þér að þá brosir heimurinn til þín. En ef þú grætur þá grætur þú aleinn.

Það er mikil frjósemi í kringum þig á þessu ári, elskan mín, og ef þú ert á réttum aldri og stað í lífinu þá gæti þetta endað með barnagaldri. Þetta á við þig sjálfan og líka fjölskylduna í kringum þig.

Knús og koss,

þín Sigga Kling

Frægir krabbar: Bryndís Schram, Sigga Lorange Ostabúðarskvísa, Auddi Blö, sem við elskum öll, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og dúlla, Ólafur Stefánsson, handboltakappi og heimspekingur, Edda Sif, Sindri Sindrason, Ásdís Halla Bragadóttir, Hjörvar Hafliðason og Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×