Innlent

Júlíus og Bjarni í Ardvis bræður

Birgir Olgeirsson skrifar
Júlíus, sem bauð MND-veikum "jónað vatn“ og "jarðtengingaról“, er bróðir Bjarna Þórs, sem er sakaður hafa nýtt sér vanþekkingu fjárfesta.
Júlíus, sem bauð MND-veikum "jónað vatn“ og "jarðtengingaról“, er bróðir Bjarna Þórs, sem er sakaður hafa nýtt sér vanþekkingu fjárfesta.
Það má með sanni segja að fáir hafi vakið jafn mikla athygli á einu kvöldi og rafmagnstæknifræðingurinn og framhaldsskólakennarinn Júlíus Júlíusson eftir ítarlega umfjöllun Kastljóssins. Í þættinum voru sýndar upptökur af fundum hans og Guðjóns Sigurðssonar, formanns MND-félagsins á Íslandi, þar sem Júlíus bauð Guðjóni til sölu tilraunameðferð við sjúkdómi Guðjóns sem er ólæknandi.

Sjá einnig: „Þeir segja að Alzheimer sé ólæknandi en ég hef hjálpað konu sem hefur fengið verulegan bata“



Á upptökunni sást Júlíus bjóða Guðjóni til sölu „jónað vatn“ og „jarðtengingaról“ og þá dró hann einnig fram pendúl til að „stilla orkufæðið“ í líkama Guðjóns. Í samtali við Vísi í gærkvöldi þvertók Júlíus fyrir að hafa reynt að selja Guðjóni þessar vörur.



Líkt og áður sagði hefur um fátt annað verið rætt á samfélagsmiðlum á borð við Twitter en þessa Kastljóssumfjöllun og bentu nokkrir netverjar á það að Júlíus er bróðir Bjarna Þórs Júlíussonar sem er annar af fyrrverandi forsvarsmönnum Costa og Ardvis en embætti sérstaks saksóknara hefur ákært hann fyrir fjárdrátt og bókhaldsbrot.



Þingfesting í málinu fór fram í byrjun febrúarmánaðar en þar er Bjarna Þór og Úlfari Guðmundssyni gefið að sök að hafa dregið sér fé með því að hafa sem fyrirsvarsmenn og prókúruhafar Costa og Ardvis ráðstafað fjármunum fyrirtækjanna í eigin þágu og til greiðslu útgjalda sem voru ótengd rekstri félaganna. Nemur upphæðin rúmlega 41 milljón króna á sex ára tímabili, á árunum 2007 til 2012.

Sjá einnig: Aðstandendur Arðvis sagðir hafa nýtt sér vanþekkingu fjárfesta



Samkvæmt ákærunni gegn þeim lögðu hluthafar fram fjármuni til félagsins á grundvelli loforða og fyrirheita sem gefin voru af ákærðu um tilgang og markmið félagsins um stofnun vefverslunar sem myndi láta ágóða renna til góðgerðamála.



Embætti sérstaks saksóknara heldur því fram að þeir Bjarni Þór og Úlfar hafi notfært sér vanþekkingu aðila á áhættufjárfestingum og þann göfuga tilgang félaganna sem Bjarni Þór og Úlfar lýstu hluthöfum og fjárfestum.



Í ákærunni kemur fram að þeir fjárfestar sem lögðu fjármagn til félaganna í formi hlutafjár hafi gert það í þeim tilgangi sem þeim var kynntur, sem var áhættufjárfesting í félagi sem starfaði að þróun og gerð upplýsingakerfa í tengslum við sölu og viðskipti á veraldarvefnum og myndi hluti ágóðans renna til góðgerðamála, en ekki í þeim tilgangi að ákærðu gætu notað fjármunina í eigin þágu, líkt og þeim er gefið að sök. Báðir neituðu þeir Bjarni Þór og Úlfar sök við þingfestingu málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×