Erlent

Júdófélagi Pútíns kominn á svarta listann

Atli Ísleifsson skrifar
Eftir að bætt var á listann hefur ESB nú fryst eignir eða takmarkað ferðafrelsi 95 Rússa og 23 rússneskra fyrirtækja.
Eftir að bætt var á listann hefur ESB nú fryst eignir eða takmarkað ferðafrelsi 95 Rússa og 23 rússneskra fyrirtækja. Vísir/AP
Júdófélaga og öðrum virktarvinum Vladimírs Pútín Rússlandsforseta hefur nú verið bætt á lista framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins yfir þá sem fá eignir sínar frystar í tengslum við viðskiptaþvinganir ESB á hendur Rússum.

Á listanum eru átta rússneskir einstaklingar og þrjú fyrirtæki, en viðskiptaþvinganirnar eru komnar til vegna stuðnings Rússa við aðskilnaðarsinna í Úkraínu. Þar má meðal annars finna milljarðamæringinn Arkady Rotenberg sem hefur lengi verið einn helst júdófélagi Pútíns, en Rotenberg hefur verið á sambærilegum lista Bandaríkjastjórnar síðan í mars.

Yury Kovalchuk og Nikolai Shamalov, stærstu hluthafarnir í Bank Rossiya, eru einnig á listanum, sem og Rússneski viðskiptabankinn sem var fyrstur til að hefja viðskipti á Krímskaga eftir að Rússar innlimuðu skagann fyrr á árinu.

Á vef Moscow Times segir að með þessum uppfærða lista hefur ESB nú fryst eignir eða takmarkað ferðafrelsi 95 Rússa og 23 rússneskra fyrirtækja.


Tengdar fréttir

ESB herðir viðskiptaþvinganir

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun herða viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna deilunnar við Úkraínumenn. Viðskiptaþvinganirnar munu ná til verslunar með olíu og tæknivara. Þá er líklegt að takmarkanir verði settar á aðgang rússneskra ríkisbanka að erlendu fjármagni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×