Viðskipti innlent

Jör ehf. tekið til gjald­þrota­skipta

Haraldur Guðmundsson skrifar
Guðmundur Jörundsson, stofnandi Jör.
Guðmundur Jörundsson, stofnandi Jör. Fréttablaðið/Daníel
Einkahlutafélagið Jör var tekið til gjaldþrotaskipta þann 11. janúar. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu en félagið var stofnað utan um hönnun á fatalínum Jör og verslunarrekstur við Laugaveg 89.

Félagið var rekið með 25 milljóna króna tapi árið 2015 og var eigið fé þess þá neikvætt um rétt tæpar 53 milljónir króna. Það var stofnað 2012 af Guðmundi Jörundssyni og Gunnari Erni Petersen.

Guðmundur sagði í samtali við Fréttablaðið í lok nóvember að fyrirtækið væri í endurskipulagningu og komið á ákveðinn byrjunarreit. Ný verslun Jör var í kjölfarið opnuð á horni Týsgötu og Skólavörðustígs. Samkvæmt upplýsingum Markaðarins er hún rekin af félaginu RE13 ehf. sem var stofnað í fyrra. Ekki náðist í Guðmund við vinnslu fréttarinnar.

Guðmundur er stærsti hluthafi RE13 og á hann 34,6 prósent eins og Gunnar Örn Petersen. Þau Othar Örn Petersen, Ragnhildur Zoéga og knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson eru einnig í hluthafahópnum.  

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×