Innlent

Jón Atli nýr rektor Háskóla Íslands

Bjarki Ármannsson skrifar
Jón Atli fékk 54,8 prósent atkvæða.
Jón Atli fékk 54,8 prósent atkvæða. Vísir/Valli
Jón Atli Benediktsson er nýr rektor Háskóla Íslands. Hann fékk meirihluta atkvæða í annari umferð rektorskosninga sem fram fór í dag. Jón Atli fékk 54,8 prósent atkvæða en mótframbjóðandi hans, Guðrún Nordal, 42,6 prósent. Kosningaþátttaka var 52,7 prósent en 2,6 prósent greiddra atkvæða voru auð. 

Mjög sterkt umboð háskólasamfélagsins

„Þetta leggst mjög vel í mig,“ segir Jón Atli, þegar blaðamaður náði af honum tali stuttu eftir að úrslitin voru tilkynnt. „Ég var ágætlega vongóður því ég fékk mjög góða kosningu í fyrri umferðinni og var næstum búinn að ná meirihluta. En maður veit samt aldrei, þá voru þrír frambjóðendur og nú voru bara tveir.“

Guðrún bauð sig einnig fram en hún laut í lægra haldi.Vísir/Vilhelm
Rúmlega þúsund fleiri stúdentar greiddu atkvæði nú en í síðustu viku. Jón Atli segist mjög ánægður með aukna þátttöku nemenda skólans milli umferða og tekur undir það að það hafi að að einhverju leyti verið jákvætt að kjósa þurfti í annað sinn.

Með mjög skýrt umboð

„Auðvitað var það erfitt að fara í aðra viku en það er líka gott fyrir þann sem vinnur að fá mjög skýrt umboð,“ segir hann. „Svo held ég líka að mörgu leyti muninum í atkvæðum starfsfólks. Þannig að mér finnst þetta líta mjög vel út, ég er með mjög sterkt umboð frá háskólasamfélaginu.“

Jón Atli segir talsverðan undirbúning blasa við áður en hann tekur formlega við embættinu þann 1. júlí næstkomandi. Hann segist hafa þakkað Guðrúnu mótframbjóðanda sínum fyrir kosningabaráttuna, sem hann segir hafa verið mjög góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×