Körfubolti

Jón Arnór og félagar enn á toppnum á Spáni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Arnór hafði hægt um sig í stigaskorun í kvöld.
Jón Arnór hafði hægt um sig í stigaskorun í kvöld. vísir/getty
Jón Arnór Stefánsson skoraði fjögur stig þegar Unicaja Malaga vann nauman tveggja stiga sigur, 76-74, á Laboral Kutxa Baskonia í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Malaga leiddi með fjórum stigum eftir 1. leikhluta, 18-14, og þegar liðin gengu til búningsherbergja var munurinn þrjú stig, 40-37.

Malaga-menn áttu góðan kafla um miðjan 3. leikhluta þar sem þeir skoruðu sex stig í röð og breyttu stöðunni úr 44-43 og í 50-43.

Jón Arnór og félagar leiddu með fimm stigum fyrir fjórða leikhlutann og náðu mest 11 stiga forskoti, 68-57, í honum. Laboral náði að laga stöðuna undir lokin en þegar uppi var staðið munaði tveimur stigum á liðunum, 76-74.

Jón Arnór lék í rúmar 15 mínútur, skoraði fjögur stig og tók tvö fráköst. Hann setti niður tvö af þremur skotum sínum utan af velli.

Malaga situr í enn toppsæti deildarinnar þegar 19 umferðum er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×