Fótbolti

Jón Aðalsteinn tekur við kvennaliði Fylkis

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jón Aðalsteinn Kristjánsson er tekinn við kvennaliði Fylkis.
Jón Aðalsteinn Kristjánsson er tekinn við kvennaliði Fylkis. Facebook síða Fylkis
Jón Aðalsteinn Kristjánsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Fylkis í knattspyrnu til næstu tveggja ára. Kristbjörg Ingadóttir verður honum til aðstoðar.

Fylkir greinir frá þessu á Facebook síðu sinni í dag. Jón Aðalsteinn tekur við liðinu af Eiði Benedikt Eiríkssyni sem stjórnaði liðinu í sumar.

Jón er 39 ára og hefur verið í þjálfarateymi kvennaliðs Vals undanfarið ár ásamt því að stjórna 2.flokki kvenna hjá félaginu sem urðu bikarmeistarar. Hann hefur áður þjálfað karlalið KF og Hamars og komið að þjálfun yngri flokka hjá Fram og Breiðablik.

Kristbjörg Ingadóttir mun vera Jóni til aðstoðar en hún kom inn í þjálfaralið Fylkis um mitt sumar auk þess að hafa verið áður við stjórnvölinn hjá Árbæjarliðinu. Kristbjörg á að baki langan feril í efstu deild kvenna sem leikmaður Vals, KR og Fylkis.

Fylkir endaði í 8.sæti Pepsi-deildar kvenna á tímabilinu og átti í harðri fallbaráttu við Selfoss og KR. Fór svo á endanum að Fylkir hélt sæti sínu í deildinni eftir æsispennandi lokamínútur í síðustu umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×