Skoðun

Jólahlaðborðið á bílnum?

Einar Guðmundsson skrifar
Jólahlaðborð eru orðin stór þáttur hjá mörgum. Oft eru þau í hádeginu og því eðlilegt að skjótast á bílnum, því vinnan bíður þegar gómsætum veitingum jólahlaðborðsins hafa verið gerð góð skil. Og það er í raun allt í lagi að fara á bílnum en þá verðum við að velja réttu drykkina með matnum, hafa þá óáfenga. Það er nefnilega ekki rétt að það sé í lagi að fá sér einn léttan og aka til baka eftir jólahlaðborðið. Sumir telja að það sé í lagi þar sem áfenga drykkjarins er neytt með mat.

Lögreglan er ekki að leita að áfengisáhrifunum ef þú ágæti ökumaður ert stöðvaður. Hún leitar eftir áfengismagninu í blóði. Sé áfengis neytt með mat upplifir neytandinn minni áfengisáhrif, en áfengismagnið í blóði er það sama, hvort sem matar er neytt eða ekki. Hugsanlega tekur það áfengið lengri tíma að komast út í blóðið.

Lögin eru skýr

Sumir telja að leyfilegt sé að hafa smá áfengismagn í blóði þar sem refsimörkin eru 0,5 prómill. En umferðarlögin eru skýr, ekki má aka eftir að hafa neytt áfengis. Lögreglan mun ekki heimila akstur þó prómillmagnið sé 0,3 eða 0,4 því það er einnig brot á umferðarlögunum.

Sumir ökumenn aka undir áhrifum vegna þess að þeir telja að lögreglan nái þeim ekki og sér í lagi þar sem þeim tókst það síðast. Svo eru þeir ökumenn sem telja sig yfir umferðarlögin hafna og mega brjóta þau að vild, bæði hvað hraða og ölvun varðar.

Í báðum tilfellum erum við hin sem ferðumst í umferðinni í hættu ef við mætum þeim. Þeir hugsa bara um sig og sínar þarfir. Myndu þeir leyfa sér að aka í þessu ástandi eftir þeirri götu sem barnið þeirra leikur sér við? Líklega ekki, því þá snertir það þeirra eigin hagsmuni.

Hafir þú einhvern tíma ekið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, er ekki of seint að snúa blaðinu við því nýr dagur byrjar á morgun. Það er ákvörðun okkar hvernig við hegðum okkur í umferðinni. Sýnum þá ábyrgð að aka ekki undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og gefum okkur það í jólagjöf.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×