Erlent

John McCain um árásir Trump á fjölmiðla: „Það fyrsta sem einræðisherrar gera“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain hefur gagnrýnt Donald Trump, Bandaríkjaforseta, harðlega, fyrir stöðugar árásir þess síðarnefnda í garð fjölmiðlamanna.

Trump hefur verið afar gagnrýninn á fjölmiðla að undanförnu, sem hann segir flytja falskar fréttir og kvartaði hann sáran undan „erfiðum spurningum“ á blaðamannafundi á fimmtudag. Á föstudag skrifaði forsetinn svo á Twitter að fjölmiðlar vestanhafs, likt og NBC, ABC, CBS og CNN væru óvinir bandarísku alþýðunnar.

Sjá einnig: Einstakur fréttamannafundur Trump í Hvíta húsinu

„Ég hata fjölmiðla,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn meðal annars í viðtali á NBC fréttastöðinni. „Ég hata þig sérstaklega. En staðreyndin er sú að við þurfum á þér að halda. Við þurfum frjálsa fjölmiðla.“

„Ef þú vilt varðveita lýðræðið eins og við þekkjum það, þá verðuru að hafa frjálsa fjölmiðla og fólk með mismunandi skoðanir innan þeirra.“

„Án þeirra, er ég ansi hræddur um að við myndum glata frelsi okkar með tímanum. Á því byrja einræðisherrar.“

McCain hefur verið afar gagnrýninn á forsetann og þá stefnu sem hann hefur talað fyrir, þá sérstaklega á sviði öryggis- og utanríkismála, þrátt fyrir að þeir séu báðir í Repúblikanaflokknum. Þannig hélt McCain ræðu á öryggisráðstefnunni í Munchen á föstudag, þar sem hann sagðist telja núverandi heimsmynd vera í hættu, vegna utanríkisstefnu Trump.

Sjá einnig: John McCain telur núverandi heimsmynd vera í hættu

Þingmaðurinn sagði að Bandaríkjamenn yrðu að gera sér grein fyrir tengslum valdboðsstjórna við árásir á fjölmiðla.

„Slíkar stjórnir byrja á því að kúga frjálsa fjölmiðla. Þegar við skoðum söguna, sjáum við að það fyrsta sem einræðisherrar gera, er að koma í veg fyrir frjálsa fjölmiðlun.“

„Ég er ekki að segja að forsetinn sé að reyna að vera einræðisherra en ég er að segja að við þurfum að þekkja söguna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×