Erlent

John Key segir óvænt af sér

Atli Ísleifsson skrifar
John Key tók við embætti forsætisráðherra árið 2008.
John Key tók við embætti forsætisráðherra árið 2008. Vísir/AFP
John Key, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur óvænt tilkynnt að hann muni segja af sér embætti eftir rúm átta ár í embætti. Key segir að fjölskylduástæður ráði ákvörðun hans.

Í frétt BBC er haft eftir Key að þetta hafi verið „erfiðasta ákvörðun sem hann hafi nokkurn tímann tekið“, og segist hann ekki vita hvað taki við hjá honum sjálfum.

Hann lagði áherslu á að ákvörðunin væri persónulegs eðlis, en hafnaði fréttum um að eiginkona hans til 32 ára, Bronagh, hafi sett honum úrslitakosti.

Key hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri en hann en settist fyrst á þing 2002 og tók við embætti forsætisráðherra árið 2008.

Bill English, aðstoðarforsætisráðherra landsins, þykir líklegastur til að taka við formennsku í Þjóðarflokknum þar til nýr leiðtogi er valinn.

Key greindi frá ákvörðun sinni í vikulegum fréttamannafundi sínum, en hann kveðst munu segja af sér í næstu viku. Sagði hann embættið krefjast mikilla fórna af hálfu fjölskyldu sinnar og að hann hefði lagt sig allan fram í verkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×