Innlent

Jóhanna meinaði samningsaðilum að yfirgefa stjórnarráðið

Heimir Már Pétursson skrifar
Rætt um stöðugleikasáttmálann í stjórnarráðinu fyrr í vikunni.
Rætt um stöðugleikasáttmálann í stjórnarráðinu fyrr í vikunni. Mynd/Arnþór Birkisson
Forsætisráðherra kallaði samningsaðila varðandi stöðugleika sátt á sinn fund í gærkvöldi og tilkynnti þeim að þeir fengju ekki að yfirgefa stjórnarráðið fyrr en samkomulag væri í höfn um nýjan stöðugleikasáttmála. Skattar hækka mikið á næsta ári en skattahækkanir verða allt að 45 prósent af aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar til að ná endum saman í ríkisfjármálum.

Stefnt er að því að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambandsins, opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins undirriti samkomulag um stöðuleikasáttmála síðar í dag.

Samkvæmt samkomulaginu mun ríkissjóður ná fram 20 milljarða hagræðingu á þessu ári, 63 milljörðum á næsta ári og 43 milljörðum árið 2011. Tekist hefur verið á um það í viðræðunum hversu stórum hluta hagræðingarinnar yrði mætt með skattahækkunum. En í aðgerðum þessa árs vega skattahækkanir 60 prósent af aðgerðum stjórnvalda.

Samtök atvinnulífsins vildu ná þessu hlutfalli niður í 35 prósent á næstu tveimur árum en ríkisstjórnin hafði lagt upp með 50 prósent. Samtök opinberra starfsmanna munu hins vegar hafa viljað ganga enn lengra í skattahækkunum. Málin voru komin í nokkurn hnút í gær og yfirgáfu samningamenn opinberra starfsmanna Karphúsið.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kallaði fulltrúa deiluaðila hins vegar á sinn fund í gærkvöldi og sagði þeim að þeir yfirgæfu ekki Stjórnarráðið fyrr en samkomulag lægi fyrir. Þegar upp var staðið varð niðurstaðan að 45 prósent af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að ná niður 150 milljarða halla á ríkisfjármálum á næstu árum verður náð með skattahækkunum.

Helstu skattstofnar ríkisins eru virðisaukaskattur, tekjuskattur einstaklinga og tryggingagjald. Nú þegar hefur verið ákveðið að hækka tryggingagjaldið og því er ljóst að töluverðar hækkanir verða á virðisaukaskatti og tekjuskatti einstaklinga á næsta ári. Útfærslan á þeim hækkunum er aftur á móti eftir, en samkvæmt heimildum fréttastofunnar er ekki útilokað að tekið verði upp þrepað skattkerfi í tekjuskatti.

Þessar aðgerðir þýða líka að ná þarf fram tugmilljarða sparnaði með hagræðingu eða niðurskurði hjá hinu opinbera á næstu árum. Þar bíða því ákvarðanir sem fullvíst má telja að allar verði óvinsælar, en mikil áhersla er lögð á það meðal samningsaðila að breið sátt verði að ríkja um aðgerðirnar, enda fátt um góða kosti í stöðunni.


Tengdar fréttir

Skrifað undir klukkan hálftvö

Undirritun Stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar hefur verið sett klukkan hálftvö. Fyrst stóð til að skrifa undir í Þjóðmenningarhúsinu klukkan hálf eitt í dag, því var síðan frestað til hálf tvö. Þá bárust fréttir þess efnis úr Forsætisráðuneytinu að undirritunin dagist fram á daginn. Nú hefur hins vegar verið tilkynnt um að undirritunin verði í Þjóðmenningarhúsinu klukkan hálftvö.

Stefnt að stöðugleikasáttmála í dag

Stefnt er að undirritun stöðugleikasáttmálans svokallaða í dag en stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar hafa fundað stíft síðustu daga og vikur.

Viðræðum slitið fyrir annarra hönd

„Forseti ASÍ og formaður SA ákváðu í beinni útsendingu að við hefðum slitið viðræðum,“ segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sem segir opinbera starfsmenn fráleitt hafa slitið viðræðum um stöðugleikasáttmála í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×