Innlent

Jóhanna hafnaði orðunni í þrígang

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Jóhanna Sigurðardótti, fyrrverandi forsætisráðherra segir, að það sér hafi tvisvar sinnum verið boðin stórriddarakross eftir að hún varð forsætisráðherra og einu sinni áður en hún tók við forsætisráðuneytinu. Hún hafi afþakkað í öll skiptin. Hún segir að sér finnist þetta úrelt fyrirbæri og á skjön við nútímahefðir.

„Þetta hefur þrisvar sinnum komið upp að mér hefur verið boðin orðan. Einu sinni áður en ég varð forsætisráðherra og síðan í tvígang eftir það. Mér hefur aldrei fundist rétt að þiggja þessa orðu. Mér hefur bara ekki hugnast það. Ég hef auðvitað hugleitt þetta en mér finnst þetta úrelt fyrirbæri og á skjön við nútíma samfélag og nútíma hefðir,“ segir Jóhann Sigurðardóttir.

Það kom hvergi fram á sínum tíma að þú hefðir afþakkað orðuna?

„Nei, nei, það kom hvergi fram. Ég fékk bréf um þetta og forsetinn hafði síðar samband við mig og ég taldi enga ástæðu til að láta vita af því.“

Jóhanna segist ekki skilja frekar en aðrir hvers vegna ekki var greint frá orðuveitingum til handhafa forsetavalds á dögunum.

Jóhanna segist hafa íhugað málið þegar henni var boðin orða en ekki séð af hverju eitt starf ætti að vera merkilegra en annað. Hún segir að löngu sé tímabært að endurskoða þessar orðuveitingar eða draga úr þeim. Margir forsetaframbjóðendur í gegnum tíðina hafi reyndar vakið máls á því.

„Af hverju er ein vinna merkilegri en önnur? Ég tel þetta ekki í samræmi við nútímaviðhorf. Þetta hefur annað slagið komið upp, líka hjá forsetaframbjóðendum, að það sé full ástæða til að draga úr þessu eða jafnvel hætta þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×