Bíó og sjónvarp

Jóhann segir ekki víst að hann komi að framhaldi Blade Runner

Bjarki Ármannsson skrifar
Jóhann segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort hann muni semja tónlistina fyrir framhald Blade Runner.
Jóhann segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort hann muni semja tónlistina fyrir framhald Blade Runner. Vísir/Getty
Jóhann Jóhannsson tónskáld segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort hann muni semja tónlistina fyrir framhald kvikmyndarinnar Blade Runner. Myndin verður í leikstjórn kanadíska leikstjórans Denis Villeneuve, en Jóhann hefur samið tónlistina fyrir tvær myndir Villeneuve, Prisoners og Sicario.

Jóhann segir í viðtali við vefmiðilinn Collider að enn sé allt of snemmt að segja til um hvort hann komi að gerð Blade Runner-framhaldsins. Jóhann hlaut sem kunnugt er Golden Globe verðlaunin í ár og var tilnefndur til Óskarsverðlaunanna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Theory of Everything.

Blade Runner, sem kom út árið 1982 í leikstjórn Ridley Scott, er með frægustu og dáðustu vísindaskáldsögumyndum allra tíma. Hún byggir á bókinni Do Androids Dream of Electric Sheep eftir skáldsagnahöfundinn Philip K. Dick og fjallar um framtíðarheim þar sem vélmenni eru framleidd til að sinna hættulegum störfum fyrir mannfólkið.

Harrison Ford fór með aðalhlutverkið og mun hann snúa aftur í nýju myndinni ásamt Ryan Gosling.

Hér fyrir neðan má heyra brot af tónlistinni úr hinni sígildu Blade Runner.


Tengdar fréttir

Stoltir af árangri Jóhanns Jóhannssonar

Tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson varð á sunnudagskvöld fyrstur Íslendinga til að fá Golden Globe verðlaunin, fyrir tónlist í The Theory of Everything.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×