Íslenski boltinn

Jóhann Laxdal: Silfurskeiðin verður alveg vitlaus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Laxdal í leik gegn Þór á dögunum.
Jóhann Laxdal í leik gegn Þór á dögunum. Vísir/Arnþór
Stjarnan tekur á móti stórliði Inter á Laugardalsvelli á morgun, en þetta er fyrri leikur liðanna um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Jóhann Laxdal, sem kom aftur til Stjörnunnar frá Ull/Kisa í Noregi í júlí, segir mikla tilhlökkun ríkja í herbúðum Stjörnunnar.

„Við hlökkum mikið til og spennan er ekkert að yfirbuga okkur,“ sagði Jóhann sem sér sóknarfæri gegn Inter.

„Við erum búnir að skoða myndbönd með þeim og það eru veikleikar í þessu liði eins og öllum liðum. Við verðum að vera óhræddir að nýta okkur það.

„Þeir liggja mikið til baka og spila með fimm manna vörn. En það er pláss milli varnar og miðju hjá þeim og við ætlum að nýta okkur það með því að breyta hratt úr vörn í sókn.“

Stjarnan mun væntanlega eyða stórum hluta leiksins á morgun án boltans. Jóhann segir liðið tilbúið fyrir það.

„Varnarleikurinn hefur gengið vel í Evrópukeppninni. Við höfum ekki alltaf verið mikið með boltann, en við höfum spilað agaðan varnarleik og nýtt þau færi sem við höfum fengið,“ sagði Jóhann sem býst við góðri stemmningu á morgun, en uppselt er á leikinn.

„Það eru ekki mörg lið sem ná að selja upp á nokkrum mínútum. Silfurskeiðin verður örugglega alveg vitlaus og vonandi tekur hinn almenni áhorfandi vel undir.

„Það eru allir Stjörnumenn á morgun. Það verður að vera þannig, því þetta er stór stund í íslenskri knattspyrnusögu,“ sagði Jóhann að lokum.


Tengdar fréttir

Búumst við ævintýralegri stemningu

Stjarnan og ítalska stórliðið Inter mætast næsta miðvikudag í Evrópudeildinni og verður leikið á Laugardalsvelli. Það er þegar uppselt á leikinn og von á einstakri stemningu í Dalnum á miðvikudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×