Íslenski boltinn

Jóhann byrjaður að æfa aftur með Keflavík

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann B. Guðmundsson gæti hjálpað Keflavík inn á vellinum.
Jóhann B. Guðmundsson gæti hjálpað Keflavík inn á vellinum. vísir/daníel
Jóhann Birnir Guðmundsson, annar tveggja þjálfara Keflavíkur, er byrjaður að æfa aftur með liðinu og gæti spilað með því á lokaspretti Pepsi-deildarinnar.

Jóhann kom við sögu í fimm leikjum með Keflavík á tímabilinu áður en hann var ráðinn þjálfari samhliða Hauki Inga Guðnasyni, en síðan þá hefur hann ekkert spilað.

„Ég er allavega byrjaður að æfa eitthvað. Ég þarf samt að koma mér í aðeins betra stand þar sem ég er búinn að vera lengi frá,“ segir Jóhann við Vísi.

Miðjumaðurinn öflugi reif vöðva í kálfa í fyrra og var ekkert með í síðustu fimm leikjum Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð. Þau meiðsli tóku sig upp aftur.

„Ég hef verið hálf tæpur í kálfanum síðan þá og meiddist aftur eiginlega um leið og við Haukur Ingi tókum við. Við sjáum svo til hvort ég geti eitthvað verið með,“ segir Jóhann B. Guðmundsson.

Keflavíkingar ætla að gera heiðarlega tilraun til að halda sæti sínu í deildinni, en þeir hafa sankað að sér nýjum mönnum í glugganum.

Nú síðast fengu þeir Sigmar Inga Sigurðarson í markið, en Keflavík er í botnsæti Pepsi-deildarinnar með fimm stig eftir þrettán leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×