Enski boltinn

Jóhann Berg og félagar stigalausir heim frá Craven Cottage

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugo Rodallega fagnar öðru marka sinna í kvöld.
Hugo Rodallega fagnar öðru marka sinna í kvöld. Vísir/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar fóru stigalausir heim frá Craven Cottage í kvöld eftir 3-0 tap á móti Fulham í Lundúnaslag í ensku b-deildinni í fótbolta.

Fulham-lið eru allt að koma til eftir skelfilega byrjun en liðið var í fallsæti fyrir leikinn í kvöld á meðan Charlton-liðið var fimmtán sætum ofar í töflunni.

Jóhann Berg kom inná sem varamaður þegar rúmur hálftími var eftir og staðan var búin að vera 2-0 fyrir Fulham í rúmar 45 mínútur.

Scott Parker og Hugo Rodallega skoruðu fyrstu tvö mörk Fulham-liðsins á fyrstu tólf mínútum leiksins og Rodallega bætti síðan við sínu öðru marki í lokin.

Scott Parker kom Fulham í 1-0 strax á sjöttu mínútu eftir að hafa byrjað sóknina sjálfur með því að ná boltanum eftir lélega sendingu Charlton-manna.

Hugo Rodallega bætti við öðru marki aðeins sex mínútum síðar þegar hann fylgdi á eftir skoti Ross McCormack. Hugo Rodallega innsiglaði síðan sigurinn á 89. mínútu og er þar með kominn með fimm mörk á tímabilinu.

Kit Symons hefur náð að kveikja í Fulham-liðinu síðan að hann tók við af Þjóðverjanum Felix Magath en þetta var fjórði sigur liðsins í síðustu sex leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×