Fótbolti

Jóhann Berg: Gaman að vera liðið á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Vísir/Andri Marinó
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í íslenska landsliðinu í fótbolta verja toppsæti A-riðilsins í undankeppni EM 2016 þegar sjöunda umferð riðilsins fer fram á morgun.

Íslenska liðið mætir þá Hollandi á Amsterdam Arena en Ísland er með tveggja stiga forskot á Tékkland og fimm stiga forskot á Holland.

„Þetta er skemmtilegt og það er gaman að vera í þessari stöðu. Það er gaman að vera liðið á toppnum og Hollendingarnir þurfa að koma og sækja einhver stig á okkur. Það er því bara gaman að vera í þessari stöðu," segir Jóhann Berg Guðmundsson.

En Ísland þá orðið stóra liðið á móti Hollandi? Jóhann Berg er ekki á því.

„Auðvitað eru þeir stærri en við og þeir eru með miklu stærri leikmenn en við. Það er bara ekki alltaf spurt um það í fótbolta því það er liðsheildin sem telur meirihlutann af þessu," segir Jóhann Berg.

„Ég held að við höfum sýnt það ansi vel í þessari keppni hversu sterka liðsheild við höfum. Við verðum að halda því áfram í næstu tveimur leikjum og vonandi náum við í einhver stig," segir Jóhann Berg.

Leikurinn fer fram fyrir framan fimmtíu þúsund manns á Amsterdam Arena. Er það ekkert stressandi fyrir strákana?

„Ég held að við séum flestir vanir því að spila alvöru leiki þar sem mikið er undir. Það eru allir vanir þessu og vonandi náum við að halda spennustiginu niðri og njóta þess að spila fótbolta. Við verðum að hafa gaman af þessu líka. Við erum búnir að koma okkur í þessa stöðu og þá eigum við að hafa gaman af þessu og njóta þess," segir Jóhann Berg. Leikmenn íslenska liðsins hafa alltaf stefnt hátt með metnaðinn í botni.

„Þetta lið hefur alltaf verið með mikið sjálfstraust og við sýndum það þegar við vorum margir saman í 21 árs landsliðinu. Við höfum náð að koma með það með okkur inn í A-landsliðið þar sem voru fyrir leikmenn með mjög fínt sjálfstraust," segir Jóhann Berg.

Íslenska liðið hefur unnið fimm af sex leikjum sínum í riðlinum og mótherjarnir hafa bara verið með forystuna í samtals 34 mínútur.

„Þegar liðið er að spila vel og allt gengur upp þá kemur sjálfstraustið sjálfkrafa. Það hefur mikið fallið með okkur og við þurfum að halda þessu áfram," segir Jóhann Berg.

Jóhann Berg að byrja tímabilið vel með Charlton í ensku b-deildinni og er sáttur með leikformið.

„Ég spila alla leiki og er bara í góðu standi. Vonandi næ ég að sýna eitthvað með landsliðinu og hjálpa liðinu. Þrjú stig myndu gefa okkur mjög mikið en við verðum bara að sjá til hvað gerist. Við förum í alla leiki til að vinna og höfum alltaf sagt það. Vonandi tekst það," segir Jóhann Berg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×