Körfubolti

Jóhann: Veit ekki hvað ég er að gera með þetta spjald

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann var virkilega ósáttur með sína menn í kvöld.
Jóhann var virkilega ósáttur með sína menn í kvöld. vísir/ernir
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var langt frá því að vera sáttur með sína menn eftir tapið fyrir Tindastóli í kvöld.

„Ég er hundfúll með mína menn. Við áttum að gera betur. Við framkvæmdum hlutina hrikalega illa í vörn og sókn í seinni hálfleik. Miðað við hvað við spiluðum illa er ótrúlegt að þetta hafi bara endað í sjö stigum,“ sagði Jóhann.

Hann var verulega ósáttur með hvernig hans menn fóru með síðustu sóknirnar í leiknum.

„Ég veit ekki hvað ég er að gera með þetta spjald. Þetta er með ólíkindum, ég er nánast orðlaus. Við ætluðum að setja 7-8 stig í einni sókn og allir ætluðu að vera hetjan í staðinn fyrir að finna gott og opið skot. Við held að við höfum ekki sett eina hindrun í seinni hálfleik. Við vorum að setja hindrun fyrir drauginn Casper sem enginn sér,“ sagði Jóhann.

Grindvíkingar fengu mun fleiri villur en Stólarnir í kvöld og það setti þá í erfiða stöðu í seinni hálfleik. Ólafur Ólafsson var t.a.m. í villuvandræðum og fékk sína fimmtu villu um miðjan 4. leikhluta.

„Við leystum það ágætlega. Auðvitað var slæmt að missa hann [Ólaf] út af en hann fékk einhverjar þrjár villur sem hann gat sleppt. Ég er mjög fúll,“ sagði Jóhann og dæsti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×