Lífið

Jóga og leiklist eiga ýmislegt sameiginlegt

Vala er afar fjölhæf en hún kennir námskeið í Listaháskólanum sem heitir Óhefðbundin Leikrými.
Vala er afar fjölhæf en hún kennir námskeið í Listaháskólanum sem heitir Óhefðbundin Leikrými. Vilhelm
Leikstjórinn Vala Ómarsdóttir flutti heim til Íslands fyrir rúmum tveimur árum eftir að hafa búið í New York og London í tíu ár. Verk Völu og listahópsins Vinnslunnar, Strengir, fékk góða dóma nú á dögunum. „Ég stofnaði Vinnsluna fyrir um það bil tveimur árum ásamt listamönnum sem ég kynntist í London og fluttu heim á sama tíma og ég. Við vorum þar flest í námi en ég var í leiklistarnámi í Royal Central School of Speech and Drama og í leikstjórn og  því sem kallast gjörningalist í Goldsmiths háskólanum.“

Í London stofnaði Vala ásamt þremur stelpum leikhópinn 11:18 sem gerði verk sem vakti mikla athygli og var valið til að fara á stórar listahátíðir.
Vala bjó í átta ár í London þar sem hún vann með stórum listahópum, Tangled Feet og Bottlefed, og ferðaðist um Evrópu með verk hópanna. „Þar stofnaði ég ásamt þremur stelpum leikhópinn 11:18 sem gerði verk sem vakti mikla athygli og var valið til að fara á stórar listahátíðir. Það var hljóðverk sem var í gangi í einni lest borgarinnar og áhorfendur fengu heyrnartól til að hlusta á. Svo var sviðsetning á lestarstöðvum um alla borg sem tengdust hljóðverkinu. Þetta verk gekk í þrjú ár í Englandi og á Írlandi en þrjár okkar skrifuðum, leikstýrðum og framleiddum það. Nú erum við að semja nýtt verk sem verður sett upp eftir rúmt ár.“

Vala stofnaði Vinnsluna ásamt þeim Guðmundi Inga Þorvaldssyni, Maríu Kjartansdóttur, Bigga Hilmars, Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur, Arnari Ingvarssyni og Starra Haukssyni. Þau settu nýverið upp verkið Strengir sem fékk góða dóma.María Kjartans
Þegar heim var komið langaði Völu að halda svipaðri vinnu áfram og stofnaði Vinnsluna ásamt  nokkrum listamönnum. „Það er svo gaman að geta unnið með listamönnum úr öllum áttum, leikurum, myndlistar- og tónlistarfólki. Í Vinnslunni leyfum við áhorfendum að hafa áhrif á ferlið og áhorfandinn ber ábyrgð á sinni upplifun þó það sé engin pressa að taka þátt frekar en hver og einn vill. Það er spennandi að finna nýjar nálganir á bæði leikverkið og á áhorfendur, þess konar verk reyna á sviðslistamanninn og áhorfandann,“ útskýrir Vala.

Vala bjó í tvö ár í New York þar sem hún kynntist jóga og hefur stundað það síðan. „Jógað hefur hjálpað mér mikið, bæði í leiklistinni og í daglegu lífi. Það er gott tól til að láta sér líða vel í eigin skinni. Þegar ég flutti aftur heim fór ég að kenna jóga og nú kenni ég powerjóga í Sporthúsinu en þar var tekið vel á móti mér og salurinn þar er góður. Þar er bæði hægt að vera á heilum námskeiðum og líka hægt að kaupa staka tíma og koma þegar hentar. Mér finnst alveg yndislegt að kenna og finna hvað fólki líður vel af því að stunda jóga,“ segir hún og brosir.

Hún segir það fara vel saman að vera leikari, leikstjóri og jógakennari. „Já, það passar vel saman bæði í daglega lífinu og í leiklistinni. Í hvoru tveggja þarf að vinna út frá eigin tilfinningu og læra að vera í núinu. Þetta snýst um að treysta og gefa eftir. Auk þess er jógað gott til að halda sér heilbrigðum, bæði andlega og líkamlega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×