Lífið

Jóga á Hornströndum

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
Gróu finnst Hornstrandir magnaðar og töfrum líkar.
Gróu finnst Hornstrandir magnaðar og töfrum líkar. VÍSIR/ERNIR
Gróa Másdóttir lærði fornleifafræði en hefur kennt jóga í meira en áratug. Hún undirbýr jógaferð á Hornstrandir í sumar.

Hornstrandir eru alveg magnaðar og töfrum líkast að vera þar. Náttúran er ósnortin, litirnir og kyrrðin eru engu lík. Meira að segja vatnið er betra þar en annars staðar. Þetta skilja allir sem hafa komið til Hornstranda,“ segir Gróa, sem dvaldi þar í nokkra daga í fyrrasumar. 

„Ég fór í jógaferð sem starfsmaður á plani. Vinkona mín, Björk Sigurðardóttir, hefur farið oft þangað og þekkir svæðið eins og lófann á sér. Hún vildi sýna mér gönguleiðir og kynna mér þær vel svo ég geti farið sjálf með hópa. Við sigldum frá Bolungarvík lengst inn í Jökulfirði og fórum í land í Lónafirði. Við gengum yfir Snókaheiði og í Hrollaugsvík og þaðan yfir í Látravík og Hornbjargsvita. Þar gistum við í þrjár nætur. Við fórum í eina langa göngu og höfðum einn hvíldardag þar sem við m.a. skoðuðum Látravíkina,“ rifjar Gróa upp en hún lærði leiðsögn og er vön að ferðast um landið með hópa.

 

„Stígshús og Frímannshús í Hornvík. Mér fannst ég vera komin inn í atriði í Börnum náttúrunnar þegar ég var þarna,“ segir Gróa.
Paradís í góðu veðri

Gróa gekk einnig með hópnum yfir Almenningsskarð og í Hornvík og alla leið út á Horn sem strandirnar eru nefndar eftir. „Við vorum frekar heppin með veður. Margir segja að Hornstrandir séu eins og Paradís í góðu veðri, en hreint helvíti í vondu veðri og ég trúi að það sé nokkuð til í því,“ segir hún. „Þetta góða veður hafði þau áhrif að okkur fannst allt svo gott. Vitavörðurinn eldaði fyrir okkur bestu kjötsúpu sem við höfum smakkað. Við fengum bestu fiskibollurnar, búnar til úr nýveiddum þorski, nýbakað brauð og svo tíndu nokkrir úr hópnum hráefni í salat, m.a. skarfakál. Þetta var allt svo dásamlegt."

Á leiðinni út á Horn. Hornvík í bakgrunni og Hælavíkurbjarg til vinstri við víkina.
Njóta en ekki þjóta

Tilgangurinn með ferðinni var að njóta en ekki þjóta, lifa í núinu, og upplifa staðinn. „Einnig gerðum við léttar jógaæfingar,“ segir Gróa.

Undirbúningur fyrir næstu ferð er í fullum gangi en í sumar fer hún til Hornstranda ásamt Þórlaugu Sveinsdóttur, á vegum Ferðafélags Íslands. Gróa mælir með að þeir sem vilji koma með þjálfi sig vel fyrir ferðina.

„Við munum ganga þrjár til fjórar dagleiðir upp um fjöll og firnindi. Þess vegna er gott fyrir fólk að vera í góðu formi. Við ætlum þó ekki að hlaupa þetta, heldur ganga á góðum en stöðugum hraða svo hægt sé að njóta umhverfisins og fá sem mest út úr ferðinni.“

Kennir jakkafatajóga

Sjálf byrjaði Gróa að stunda jóga fyrir fimmtán árum og eftir það varð ekki aftur snúið. „Ég hef verið jógakennari síðan 2005. Ég kenndi í tólf ár hjá World Class en hætti um áramótin og vinn núna fyrir Jakkafatajóga. Við förum inn í fyrirtæki og kennum fólki léttar jógaæfingar. Það er svakalega skemmtilegt. Ég hef kynnst fjölda fyrirtækja sem ég vissi ekki einu sinni að væru til. Jóga er eins og verkfæri í verkfæratöskunni hjá fólki til að láta sér líða vel,“ segir Gróa sem ætlar að kynna Jógaferðina í húsnæði Ferðafélagsins í Mörkinni 6 í kvöld kl.20.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×