Fótbolti

Joe Hart: Það vill enginn mæta okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Hart athugar með stöðuna á Gary Cahill sem varð fyrir meiðslum í leiknum en hélt áfram.
Joe Hart athugar með stöðuna á Gary Cahill sem varð fyrir meiðslum í leiknum en hélt áfram. Vísir/Getty
Joe Hart, markvörður enska landsliðsins, stóð vaktina vel og hélt marki sínu hreinu í kvöld. Hann horfði á sama tíma á sóknarmenn enska liðsins klúðra hverju færinu á fætur öðru í markalausu jafntefli á móti Slóvakíu í lokaleik enska landsliðsins í riðlakeppni EM í Frakkalandi.

„Við vildum vinna riðilinn en það tókst ekki. Við vorum með yfirburði á öllum stöðum á vellinum og allir leikmenn Slóvakíu geta verið stoltir af þessum úrslitum," sagði Joe Hart við BBC eftir leikinn.

Wales vann 3-0 sigur á Rússlandi á sama tíma og tryggði sér þar með efsta sætið í B-riðlinum.

„Við erum komnir áfram í næstu umferð og þar vill enginn mæta okkur. Ég hef nánast haft ekkert að gera í keppninni til þessa og við höfum verið að spila mjög vel sem lið," sagði Hart sem hefur engu að síður fengið á sig tvö mörk.

„Við erum að skapa okkur góð færi. Ég get ekki gagnrýnt neinn. Það hefur verið hetjulegur varnarleikur á móti okkur og það er vissulega pirrandi," sagði Hart. Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, gerði sex breytingar á byrjunarliði sínu frá því í sigurleiknum á móti Wales.

„Við erum mjög ánægðir með hópinn okkar og allir 23 leikmennirnir eiga skilið að spila," sagði Hart.

Enska landsliðið mætir í sextán liða úrslitunum liðinu sem endar í öðru sæti í riðli Íslands. Eins og staðan er núna þá er það Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×