Enski boltinn

Joe Hart: Rooney er fyrirliðinn okkar, ég var í afleysingum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Joe Hart var með bandið.
Joe Hart var með bandið.
Joe Hart, markvörður enska landsliðsins í fótbolta, bar fyrirliðabandið í sigrinum gegn Litháen á Wembley í gær. Hann var stoltur að leiða liðið út á völlinn en var fljótur að koma því á framfæri í viðtölum eftir leik að hann hefði bara verið í afleysingum.

Gary Cahill bar fyrirliðabandið í vináttuleiknum á móti Þýskalandi en hann var í leikbanni á móti Litháen. Wayne Rooney er skráður fyrirliði enska landsliðsins en hann var ekki með vegna hnémeiðsla.

„Rooney er fyrirliðinn okkar. Ég veit það. Ég var bara að leysa hann af. Jordan Henderson og Gary Cahill vita líka að Rooney er fyrirliðinn okkar. Ég var bara einn eftir af okkur fjórum í dag,“ sagði Joe Hart við ITV eftir leikinn.

„Ég er augljóslega mjög stoltur af því að vera fyrirliði míns landsliðs en ég veit hvar ég stend í þessu liði og eina sem ég hugsa um er að standa mig nógu vel til að spila næsta leik.“

Enska liðið vann 2-0 með mörkum Jamie Vardy og Jermain Defoe.

„Þetta var ekki fallegt, var það? En við skoruðum mörkum sem þurfti. Litháen er betra lið en þeir halda. Við erum ánægðir með að halda hreinu en við hefðum getað skorað fimm eða sex mörk,“ sagði Joe Hart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×