Skoðun

Jess við erum JÖFN!

Anna Kristín Kristjánsdóttir skrifar
Fyrir tæplega ári skiluðum við á auglýsingastofunni Hvíta húsinu inn umsókn til VR um jafnlaunavottun. Okkur grunaði að það væri afar hollt fyrir fyrirtæki af okkar stærðargráðu, með um 40 starfsmenn, að fara í gegnum þetta ferli. Einnig vissum við að það yrði mikil áskorun þar sem við erum ekki með skilgreindan mannauðsstjóra.

Lærdómurinn af vegferðinni kom okkur skemmtilega á óvart og ávinningurinn mun meiri en við áttum von á. Jákvæðast var þó að fá staðfestingu á því að á vinnustaðnum ríkir jafnrétti, hvort sem horft er til jafnra launa kynjanna fyrir sambærileg störf, útdeilingu verkefna og ábyrgðar, starfsþróunar eða annarra þátta. Hlutfall kvenna og karla er nákvæmlega 50/50 og í stjórn fyrirtækisins eru tvær konur og þrír karlar.

Það er ekki þrautalaust fyrir skapandi einstaklinga að fara í gegnum þetta ferli. Svo mörg „leiðinleg“ hugtök fylgja svona vinnu: verkferlar og flæðirit, vottun og viðmið og starfaflokkun og því um líkt. Fyrstu hugsanirnar voru „er ekki hægt að breyta nafninu á þessu?“, „er ekki hægt að gera þetta eitthvað meira „sexí“ svo fyrirtæki hreinlega geti hugsað sér að fara í gegnum þetta?“

Það þyrfti sannarlega að markaðssetja ávinninginn betur því hann er svo langt umfram það að vera bara einhver stimpill á plakat.

Ávinningurinn er margþættur og sjálfsagt hlutfallslega miklu meiri fyrir smærri fyrirtæki, því þetta er lærdómsferli; þjálfun í jafnréttismiðuðum og stefnumiðuðum mannauðsmálum og innleiðing agaðri vinnubragða. Við sjáum ekki eftir einni einustu sekúndu og hvetjum forsvarsmenn minni fyrirtækja til að feta í okkar fótspor.

Við höfum ekki tíma er örugglega svar margra í forsvari fyrir minni fyrirtæki. Og það er sjálfsagt oft rétt. En jafnrétti og það að tryggja jafnan hlut kynjanna í launum fyrir sambærileg störf er á ábyrgð okkar allra. Ekkert fyrirtæki getur skorast undan þeirri áskorun að rýna sinn launastrúktúr og velta fyrir sér hvernig hann varð til, af hverju erum við að borga svona laun og fyrir hvað? Hvert er framlagið og hverjar eru kröfurnar? Ef niðurstaðan endurspeglar jafnrétti, frábært, en ef ekki er aðgerða þörf.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×