Erlent

Jericho ekki bróðir Cecils og líklega enn á lífi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Drápið á Cecil hefur vakið hörð viðbrögð vestanhafs.
Drápið á Cecil hefur vakið hörð viðbrögð vestanhafs. vísir/afp
Mis­mun­andi frétt­ir ber­ast nú af því hvort að ljónið Jericho, sem sagt var vera bróðir ljóns­ins Cecils sem drepinn var af veiðiþjófum í síðustu viku, hafi hlotið sömu örlög í gær. Þannig er jafnvel talið líklegra að fjölgun kunni að verða í fjölskyldu ljónanna, frekar en fækkun.

Dýraverndunarsamtök í Simbabve tilkynntu um dauða Jerichos á Facebook-síðu sinni seinni partinn í gær en aðeins nokkr­ir dag­ar eru síðan Cecil var skot­inn eft­ir að hafa verið lokkaður út úr Hwange-þjóðgarðinum þar sem hann hélt til.

Mikil reiði braust út meðal netverja eftir að fregnir tóku að berast af dauðanum.

Ekki leið á löngu áður en samskiptamiðillinn Twitter fylltist af færslum um bræðurna Jericho og Cecil og ef marka má vinsældamælingu síðunnar var dauði Jericho eitt fyrirferðamesta umræðuefni heimsins um nokkurra klukkustunda skeið.

Sjá einnig: Drápið sem gerði allt vitlaust

Fyrstu fregnir af dauða Jerichos kunna þó að hafa verið stórlega ýktar því einungis nokkrum klukkustundum síðar var farið að draga þær til baka.

Líffræðingurinn Brent Staplekamp sem unnið hefur við rannsóknir á ljónum í Hwange sagði þannig í samtali við AP fréttastofuna að ekkert gæfi til kynna að Jericho hafi verið skotinn. Samkvæmt gögnum úr GPS-staðsetningaról væri ekki ljónið einungis enn á lífi heldur á harða spretti við hlið ljónynju og því allar líkur á því að hann væri í mökunarhugleiðingum.

Nú er talið er líklegt að dýraverndunarsamtökin sem upphaflega tilkynntu um dauða Jerichos hafi ruglað saman rannsóknargögnum um dauða annars ljóns í garðinum sem skotið var í upphafi síðasta mánaðar og talið það vera bróðir Cecils.

Það hefur þó ekki fengist staðfest að svo stöddu, ekki frekar en hvort Jericho sé í raun lífs eða liðinn.

Eitt er þó víst, Jericho er ekki tengdur Cecil blóðböndum heldur var hann einungis „samstarfsaðili“ hans, eins og það er orðað á vef ABC fréttastofunnar. 


Tengdar fréttir

Bróðir Cecils skotinn til bana

Ljónið Jericho hafði annast unga Cecils áður en veiðiþjófar réðu hann af dögunum í Huwange þjóðgarðinum í Simbabve í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×