Erlent

Jeremy Corbyn ávarpaði tónlistarunnendur á Glastonbury hátíðinni

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokks Bretlands, og Michael Eavis, skipuleggjandi hátíðarinnar.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokks Bretlands, og Michael Eavis, skipuleggjandi hátíðarinnar. Vísir/AFP
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, flutti ræðu á tónlistarhátíðinni Glastonbury í dag við mikinn fögnuð gesta. Corbyn steig á svið á „Pýramídasviði“ hátíðarinnar, sem er stærsta sviðið, klukkan tvö að staðartíma þegar tónlistarmaðurinn Craig David kláraði tónleikana sína. BBC greinir frá.

Tugþúsundir hlustuðu á Corbyn en í ræðunni kallaði hann eftir heimi þar sem mannréttindi, friður, réttlæti og lýðræði væri í hávegum haft. 

Sungu áhorfendur „OhJeremy Corbyn“ við lagið Seven Nation Army með hljómsveitinni The White Stripes á meðan á ræðunni stóð.

Féll áhersla hans á jafnrétti í góðan jarðveg og mikið var um fagnaðarlæti þegar hann kallaði eftir því að rétta flóttamönnum hjálparhönd.

„Styðjum þau þegar þau þurfa hvað mest á hjálp að halda og lítum ekki á þau sem ógn og hættu,“ sagði Corbyn við mikinn fögnuð áhorfenda. 

Í ræðu sinni kom hann einnig inn á nýafstaðnar þingkosningar. Talaði hann um að hann væri einstaklega ánægður með þátttöku ungs fólks í kosningunum og sömuleiðis með kosningaþátttöku þeirra. Corbyn talaði um að hann hefði fengið mikinn innblástur frá unga fólkinu sem tók þátt í kosningabaráttunni með honum.

Skipuleggjandi hátíðarinnar, Michael Eavis, bauð Corbyn að halda ræðuna og kynnti hann einnig á svið. Talaði hann um Corbyn sem „leiðtogann sem tekur á málunum sem við höfum verið að berjast fyrir í fjörutíu ár.“

Fjöldi þekktra tónlistarmanna kemur fram á hátíðinni í kvöld. Til að mynda enda Foo Fighters dagskrána á Pýramídasviðinu, hljómsveitin Alt J stíga síðast á svið á „Hinu sviðinu“ og franska hljómsveitin Phoenix lokar kvöldinu á „John Peel“ sviðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×