Innlent

Játaði að hafa ekið stolnum lögreglubíl á 129 km hraða fullur en lögregla borgar brúsann

Sæunn Gísladóttir skrifar
Það var álit dómsins að lögreglustjórinn á Selfossi hafi verið vanhæfur til að fara með rannsóknina.
Það var álit dómsins að lögreglustjórinn á Selfossi hafi verið vanhæfur til að fara með rannsóknina. vísir
Ríkinu er gert að greiða sakarkostnað máls þar sem maður stal bíl og keyrði undir áhrifum áfengis, vegna þess að bifreiðin, sem stolið var, hafði verið í umsjá rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurlandi.

Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands að maður hafi ruðst heimildarlaust inn á heimili og tekið þaðan lykla að bifreið, notað hana í heimildarleysi og ekið án tilskilinna ökuréttinda, undir áhrifum áfengis og á 129 kílómetra hraða á klukkustund austur Suðurlandsveg við Ingólfsfjall.

Ók til Reykjavíkur og til baka

Hann hafi ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu heldur ekið áfram þangað til akstur bifreiðarinnar var stöðvaður við Ölfusárbrú á Selfossi.

Maðurinn játaði á sig alla sök nema hvað varðar nytjastuld og húsbrot. Lögreglustjórinn á Suðurlandi fór með rannsókn málsins en bifreiðin var í umsjá rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurlandi. 

Samkvæmt lögreglulögum mega lögreglustjórar og aðrir þeir sem fara með lögregluvald ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum.

Ákærunni vísað frá dómi

Það er álit dómsins að lögreglustjórinn á Selfossi hafi verið vanhæfur til að fara með rannsókn á umræddum meintum nytjastuldi ákærða sem beindist að umræddri bifreið þar sem embætti lögreglustjórans var sjálft í stöðu brotaþola. Ákærunni var því vísað í heild sinni frá dómi.

Ákærða verður ekki gert að greiða sakarkostnað málsins, ríkissjóður greiðir því verjanda hans 879.780 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu lögreglustjóra Vestmannaeyja hefur málið verið kært til Hæstaréttar.

Uppfært klukkan 9:45

Hæstiréttur felldi á föstudaginn úr gildi úrskurð héraðsdóms og vísaði málinu til efnislegrar meðferðar við Héraðsdóm Suðurlands. Úrskurðurinn var birtur á vef Hæstaréttar eftir hádegi í gær.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×