Golf

Jason Day fagnaði sigri eftir bráðabana

Jason Day hafði ástæðu til þess að brosa í kvöld.
Jason Day hafði ástæðu til þess að brosa í kvöld. Getty
Ástralinn Jason Day tryggði sér sinn þriðja sigur á PGA-mótaröðinni á ferlinum í kvöld en hann lék best allra á Farmers Insurance mótinu.

Lokahringurinn var æsispennandi en margir kylfingar skiptust á að taka forystunna og á einum tímapunkti voru yfir átta kylfingar í forystu eða einu höggi frá henni. Það endaði því þannig að fjórir kylfingar deildu efsta sætinu að loknum 72 holum á Torrey Pines vellinum og því þurfti að grípa til bráðabana.

Það voru þeir Scott Stallings, Harris English, J.B. Holmes og Jason Day en á fyrstu holu í bráðabana fengu Day og Holmes fugl á meðan að Stallings og English fengu par. Það var svo á annarri holu í bráðabananum þar sem úrslit réðust en J.B. Holmes fékk skolla á hana meðan að Day gat tvípúttað fyrir pari og sigrinum.

Jason Day er gríðarlega vinsæll kylfingur á PGA-mótaröðinni, bæði meðal áhorfenda og annarra kylfinga enda er hann brosmildur með eindæmum. Ferill hans hefur þó verið plagaður af meiðslum en ef þessi hæfileikaríki kylfingur nær að halda sér heilum á komandi tímabili gæti hann hæglega gert atlögu að stærstu titlum ársins í golfheiminum.

Fyrir sigurinn fékk Day rúmlega 130 milljónir króna en næsta mót á PGA-mótaröðinni verður á hinum sögufræga Pebble Beach velli og hefst á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×