Innlent

Jarðeðlisfræðingur við HÍ: Næsta Heklugos gæti grandað flugvél

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Páll vill breyta flugleiðum til að koma í veg fyrir flugslys.
Páll vill breyta flugleiðum til að koma í veg fyrir flugslys.
„Það eru óásættanlega miklar líkur á að næsta Heklugos geti grandað flugvél,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Páll telur að flugleiðir yfir Heklu séu of hættulegar og hvetur flugyfirvöld til að breyta flugleiðum. Hann sendi samgöngustofu bréf og í því rekur hann ástæður fyrir því af hverju það ætti ekki að fljúga beint yfir Heklu.

Í bréfinu rekur Páll ástæður þess hvers vegna flug beint yfir Heklu sé hættulegt og segir: „Þegar allt þetta er skoðað í samhengi verður að telja marktækar líkur á því að næsta gosbyrjun í Heklu geti valdið flugslysi.“

Samspil magra þátta

Í samtali við Vísi segir Páll að samspil margra þátta geri það að verkum að flugleið beint yfir Heklu sé óheppileg og í raun hættuleg. „Já, þetta er samsafn af ástæðum. Hekla er nú tilbúin í gos og gosin í Heklu byrja með látum. Gosstrókurinn í Heklugosum er hár og rís hratt. Þessi stutti aðdragandi gerir það að verkum að það gæti orðið erfitt fyrir yfirvöld að bregðast við og beina flugvélum frá svæðinu,“ útskýrir hann og heldur áfram:

„Við alla þessa áhættuþætti bætist við að þetta er vinsæl flugleið. Ég vildi bara vekja athygli á þessu máli, því nú er mikið talað um röskun á flugi vegna ólgunnar í Bárðarbungu. Hekla er ólík öðrum eldfjöllum og það eiga að gilda sérstakar reglur um flug yfir hana.“

Nítján vélar flugu yfir Heklu í gær

Málið er til umfjöllunnar á vefnum Alltumflug.is. Þar kemur fram að nítján flugvélar flugu beint yfir eldfjallið. Það var ein einkaþota, ein fraktflugvél og sautján farþegaþotur. Könnun vefsíðunnar náði yfir sólarhringstímabil frá miðnætti á miðvikudagskvöld til miðnættis á fimmtudagskvöld. Vélarnar sem flugu yfir Heklu á þessu tímabili voru allar frá erlendum flugfélögum, til dæmis Delta Air Lines, Lufthansa, SAS og Etihad Airways.

Hér á meðfylgjandi mynd má sjá flugleið farþegaþotu sem flaug beint yfir Heklu klukkan 15:30 í dag.

„Ef að flugleiðum yrði breytt lítillega, og vélarnar myndu fljúga kannski í tíu kílómetra fjarlægð frá Heklu myndi það gjörbreyta stöðunni. Þessi breyting kostar því ekki peninga. Þetta snýst bara um að breyta starfsvenjum flugstjóranna,“ segir Páll.

Hann segir að ekki þurfi að hafa sömu áhyggjur af gosi í Bárðabungu. „Þar duga þessar venjulegur reglur sem menn hafa sett sér. Þegar dregur nær gosi þá er flugi bægt frá. Það verður nægur fyrirvari til þess,“ segir hann.

Hætta á að grunlaus flugmaður geti flogið inn í gosstrókinn

Í bréfinu sem Páll sendi Samgöngustofu fyrr í mánuðinum segir meðal annars:

„Mælanlegur fyrirvari gosa er óvenju stuttu í Heklu, 23-79 mínútur samkvæmt reynslu frá gosum 1970, 1980, 1991 og 2000. Flest önnur eldfjöll hafa sýnt lengri fyrirvara. Gosið 2000 er eina gos Heklu þar sem gefin var út aðvörun áður en gosið kom upp, enda var fyrirvarinn lengstur þá, 79 mínútur. Það er ekki víst að hægt verði að gefa út viðvörun á undan næsta gosi. Við þetta bætist að byrjunarfasi Heklugosa er venjulega öflugur og gosstrókurinn rís hratt. Almennar reglur og vinnulag í sambandi við flug og eldgos duga því tæpast hér, þótt þær geti verið gagnlegar við önnur eldfjöll. Hætta er á að grunlaus flugmaður geti flogið inn í gosstrókinn með skelfilegum afleiðingum. Ég minni á að litlu munaði að svo færi í gossbyrjun 17. ágúst 1980.“



Bréfið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Þessi mynd er tekin af vefnum Flightradar24 klukkan 15:30 í dag. Þar sést farþegaþota fljúga beint yfir eldfjallið á leið til Keflavíkur.
Hér er bréfið sem Páll sendi Samgöngustofu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×