Erlent

Jarðarbúar verða 11 milljarðar við upphaf næstu aldar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekkert lát virðist ætla verða á mannfjölgun á öldinni.
Ekkert lát virðist ætla verða á mannfjölgun á öldinni. Vísir/Stefán
Ný rannsókn Sameinuðu þjóðanna, sem framkvæmd var af University of Washington í Seattle í Bandaríkjunum, hefur leitt í ljós að miklar líkur eru á því að jarðarbúum munu fjölga jafnt og þétt á öldinni. Þegar ný öld gengur í garð muni heimsbyggðin telja 11 milljarða – sem er um tveimur milljörðum meira en fyrri áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Rannsóknin, sem birt var í dag í vísindatímaritinu Science, byggir á nýjustu tölum um mannfjöldaáætlanir og notast er við nýja aðferð við framkvæmd sambærilegra rannsókna.

„Undanfarin tuttugu ár hafa menn verið sammála um að mannfjöldi myndi aukast um tvo milljarða áður en færi að hægja að fjölguninni og hún jafnvel ganga til baka,“ sagði Adrian Raferty, einn vísindamannanna sem stóð að rannsókninni.

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að um 70 prósent líkur væru á því að mannfjöldaþróunin myndi ekki ná jafnvægi á þessari öld. Fjöldi jarðarbúa, sem hefur fallið út af dagskrá heimsbyggðarinnar, er ennþá mikilvægt viðfangsefni.“

Frá lestarstöð í Kína, fjölmennasta landi heims.Vísir/AFP
Með jafnvægi er átt að fæðingar verða jafnmargar og dauðsföll á hverju ári. 

Ef spárnar ganga eftir mun mesta fjölgunin eiga sér stað í Afríku þar sem mannfjöldi mun fjórfaldasta ef svo fer sem horfir – fara úr einum milljarða Afríkubúa upp í fjóra milljarða. Helsta ástæðan fyrir því er rakin til þess að  ekki hefur dregið úr fæðingartíðni sunnan Sahara eyðimerkurinnar  eins og fyrri spár gerðu ráð fyrir. Um 80 prósent líkur eru leiddar að því að íbúafjöldi Afríku verði á bilinu 3,5 til 5,1 milljarðar.

Þá er talið að íbúar Asíu, sem nú eru um 4,4 milljarðar, muni fjölga um rúmar 700 milljónir áður en að þeim tekur að fækka á nýju.

Íbúar annarra heimsálfa munu ekki rjúfa eins milljarðamúrinn.

Sem fyrr byggja mannfjöldaspár á tveimur þáttum, fæðingar- og dánartíðni. Könnunin sem birtist í Science í dag tekur þá einnig mið af fólksflutningum milli landssvæða sem gætu haft töluverð áhrif á fyrrgreinda þætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×