Handbolti

Janus Daði: Hættum að geta skorað

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Janus Daði tekur á móti Daniel Sarmiento.
Janus Daði tekur á móti Daniel Sarmiento. vísir/afp
Janus Daði Smárason þreytti frumraun sína á stórmóti þegar Ísland tapaði 27-21 fyrir Spáni á HM í Frakklandi í kvöld.

„Við erum hundsvekktir og okkur langaði að fá meira út úr þessum leik. En svo fór sem fór og við ætlum að taka fullt af góðum hlutum út úr leiknum,“ sagði Janus í samtali við Vísi eftir leik.

En hvernig leið honum inni á vellinum í fyrsta leiknum á stórmóti?

„Mjög vel. Þetta var æðislegt og stúkan var frábær. Ég fékk mín tækifæri og fór illa með nokkur dauðafæri sem telja. En ég mæti betri í næsta leik og get lært helling af þessum leik,“ sagði Janus sem var ánægður með sóknarleik Íslands í fyrri hálfleik.

„Við spiluðum agað og héldum pressu á þeim,“ sagði Haukamaðurinn sem kvaðst ekki hafa verið stressaður inni á vellinum.

„Ég held að maður sé stressaðri þegar maður horfir á leikinn uppi í stúku. Maður er að æfa þetta á hverjum degi og þetta eru bara sex á móti sex,“ sagði Janus.

Ísland leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 10-12, en í seinni hálfleik hallaði undan fæti hjá íslenska liðinu, sóknin hrökk í baklás og Spánverjarnir gengu á lagið.

„Við hættum að geta skorað. Við fórum illa með dauðafæri og fórum svo að flýta okkur. Þeir þéttu pakkann og markvörðurinn þeirra var frábær,“ sagði Janus og bætti því við að íslensku strákarnir gætu tekið margt jákvætt út úr leiknum í kvöld.

„Helling, fyrri hálfleikurinn var flottur í vörn og sókn. Svo var viðhorfið til fyrirmyndar,“ sagði Janus að lokum.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×